Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:11:17 (337)


[17:11]

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessar umræður sem hér hafa farið fram, sem um flest hafa verið gagnlegar. Auðvitað er það svo, og kom mér ekki á óvart, að um grundvallaratriðin í þessu eru menn yfirleitt á einu máli. Fyrst og fremst að það er skylda Alþingis og stjórnvalda að standa vörð um þá mikilvægu hagsmuni sem háskólinn annars vegar og björgunarsveitirnar, Slysavarnafélagið og Rauði krossinn á hinn bóginn, standa fyrir. Og það hefur ekki komið fram hjá nokkrum manni önnur skoðun en sú að Alþingi og stjórnvöldum beri að styðja við bakið á þessum aðilum og tryggja þeim eftir því sem föng eru á nauðsynlega tekjustofna. Þetta er auðvitað aðalatriðið.
    Sumt sem hér hefur komið fram byggir á áframhaldandi misskilningi. Það hefur verið endurtekið hér af hálfu nokkurra hv. þm. að það sé persónulegt mat mitt eða persónuleg ákvörðun mín sem ráðherra að kveða upp úr um það hvort háskólinn eigi að fjármagna byggingarframkvæmdir með happdrættisfé eða fá það fjármagn af fjárlögum. Ég gerði ítarlega grein fyrir því hér í upphafi, og þess vegna hefði sá misskilningur ekki átt að þurfa að koma fram aftur í ræðum hv. þm., að lög landsins kveða á um það að háskólinn afli fjár til byggingarframkvæmda með þessum hætti. Flestir hv. þm. hafa einmitt staðfest það athugasemdalaust við fjárlagaafgreiðslu ár eftir ár og ekki haft uppi ræður um að það væri ósiðlegt eða ótilhlýðilegt. Ég get alveg tekið átt í umræðum um það hvort þetta er rétt eða ekki. En það er ekki sú ákvörðun sem ég stóð frammi fyrir. Ég stóð frammi fyrir því að taka á grundvelli gildandi laga afstöðu til óska frá Háskóla Íslands um að fá að nýta nýjustu tækni við framkvæmd happdrættismála. Það sem ég tók fram hér, að ég gæti ekki tekið þátt í hrossakaupum um framkvæmd þeirra laga annars vegar og laga um almannavarnir hins vegar, byggir auðvitað því að ég varð að taka málefnalega afstöðu til framkvæmda á einstökum lögum. Það að leiðrétta nokkuð hlut háskólans innan þeirra lagaheimilda sem fyrir hendi eru felur ekki í sér að ég sé að taka ákvörðun um það að leggja í rúst fjárhag annarra samtaka. Þvert á móti hefur alltaf komið fram af minni hálfu að ég væri reiðubúinn til þess að ræða við þau samtök og ef hlutur þeirra skertist að bæta þar úr. Og það er rangt að bera mér það á brýn að þessi afstaða mín gagnvart því að framkvæma lög um Happdrætti Háskóla Íslands á eðlilegan og málefnalegan hátt feli í sér neikvæða afstöðu gagnvart öðrum. Það er útúrsnúningur á því sem rétt er í málinu og ég kann illa við að mér sé borið á brýn það sem ekki er hægt að rökstyðja með góðu móti.
    Ég lýsti því hér yfir að ég sakna þess að þessir aðilar skuli fyrst og fremst hafa lagt áherslu á það að ég legði stein í götu háskólans til þess að tryggja þeirra stöðu, frekar en að óska eftir því að ræða um lagalegan grundvöll þeirrar starfsemi, möguleika á að útvíkka hana ef líklegt væri að á hana hallaði. Og ég ítreka það hér enn og aftur að ég er reiðubúinn til þess að taka upp þær viðræður og get gert það þegar í kvöld ef menn eru tilbúnir til þess.
    Það er kallað eftir því að ég leiði þessa aðila saman, Rauða krossinn og björgunarsveitirnar annars vegar og háskólann hins vegar. Það hef ég reynt að gera. Það liggur hins vegar hér fyrir skjalfest að Rauði krossinn og samstarfsaðilar telja ekki grundvöll fyrir áframhaldandi samkomulagi ef háskólinn stendur fast á sinni kröfu um að fá að reka í Reykjavík tvær eða þrjár stofur utan hótela og veitingahúsa. Háskólinn segir á hinn bóginn: Við erum ekki reiðubúnir til samkomulags ef þetta er ekki með. Allir þessir aðilar eru ábyrgir menn og þegar þeir setja fram gagnstæð skilyrði af þessu tagi, þá get ég ekki rekið þessa menn saman. En ábyrgðin er auðvitað þeirra. Þeir hafa hvor um sig fengið frá löggjafarvaldinu og stjórnvöldum réttindi til þess að afla fjár með sérstökum hætti og ábyrgðin hvílir auðvitað á þeim að ná saman. Ég hef ekki gert og mun ekki gera að gera öðrum upp sakir í þessu efni. Ég ætla ekki að halda því fram að strand viðræðnanna sé öðrum aðilanum að kenna en ekki hinum. Það hefur aldrei komið fram af minni hálfu og mun ekki koma fram, enda er ekki efni til þess. Báðir aðilar hafa sett þessi skilyrði fyrir framhaldi viðræðnanna.
    Ég hefði talið eðlilegt að þeir hefðu haldið viðræðunum áfram og ekki sett þessi skilyrði fyrir því, báðir aðilar. Það hefði ég talið eðlilegt. En ég stjórna ekki afstöðu þessara manna og get ekki gert. Þess vegna væri ég fús til þess að láta ráðuneytið eiga áframhaldandi viðræður ef báðir aðilar væru reiðubúnir að falla frá skilyrðum fyrir áframhaldandi viðræðum.
    Ég er líka, eins og hér hefur komi fram, reiðubúinn að ræða við Rauða krossinn og björgunarsveitirnar og Slysavarnafélagið sérstaklega um þeirra fjáröflun. En eins og hv. alþm. er kunnugt, þá fór hún af stað 1972 á grundvelli almennra heimilda til þess að leyfa fjársafnanir. Það var Ólafur Jóhannesson sem staðfesti þessa heimild og þar er sérstaklega tekið fram að það sé ekki hægt að mismuna aðilum í þessu efni. Allir aðrir sem standa að mannúðar- og líknarmálum geti farið fram á það að fá leyfi til þess að reka fjáröflun með sama hætti og Rauði krossinn í því tilviki. Það eru þau lög í landinu sem í gildi eru og Ólafur Jóhannesson staðfesti á sínum tíma. Ég hef talið fullkomlega eðlilegt að menn ræddu um það að skjóta sterkari lagastoð undir þetta og jafnvel að verja með því rétt þessara samtaka til þess að njóta einir þessarar aðferðar við fjáröflun. Ég hef alltaf verið tilbúinn að ræða það og hef saknað þess að umræðan af þeirra hálfu skuli ekki hafa í ríkara mæli snúist um þetta heldur frekar um að leggjast á háskólann sem væri ómálefnalegt af minni hálfu.