Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldisverkum

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:33:50 (343)

[17:33]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 25 hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til hæstv. félmrh.:
  ,,1. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að leggja fram tillögur um úrræði til verndar börnum og unglingum sem henni var falið að gera samkvæmt þingsályktun er samþykkt var á Alþingi 9. maí 1992?
    2. Telur ríkisstjórnin ekki að hinir tíðu válegu atburðir leggi henni þær skyldur á herðar að gera öflugt átak til að draga úr orsökum þeirra?``
    Þingsályktunin sem þarna er vísað til, hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt og semja skýrslu um orsakir vaxandi erfiðleika og hættur fyrir börn og unglinga sem koma m.a. fram í aukinni neyslu vímuefna, sjálfsvígum, ofbeldi og öðrum afbrotum.
    Til að vinna að þessu verkefni skipi ríkisstjórnin nefnd með fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Í starfi sínu leiti nefndin upplýsinga hjá þeim stofnunum, félagasamtökum og öðrum aðilum sem um þetta málefni hafa fjallað.
    Nefndin skili skýrslu sinni og ábendingum um úrbætur svo fljótt að taka megi málið til meðferðar á næsta Alþingi í samræmi við þá niðurstöðu sem nefndin kemst að í starfi sínu.``
    Nú er liðið það þing sem átti að fá tillöguna samkvæmt þál. og það næsta er hafið án þess að nokkuð jákvætt hafi komið frá ríkisstjórninni um það málefni. Flestum öðrum mun þó vera ljóst að brýnna aðgerða er þörf þó reynt sé að leita ólíkra skýringa á óheillaþróun síðustu ára. Ýmsar staðreyndir liggja þó fyrir.
    Nýlega voru birtar niðurstöður úr könnun sem sýndi að síðan meiri hluti Alþingis samþykkti sölu á áfengum bjór hefur áfengisneysla barna og unglinga 13--15 ára tvöfaldast og 16--19 ára aukist um 80%. Hjá báðum hópunum hefur neysla sterkra drykkja vaxið auk þess sem bjórinn bætist við. Sjálfsagt hefur það haft mikil áhrif að á þessum tíma hefur verið rekinn ofstækisfullur áróður fyrir því að allt eigi að vera frjálst, ekki megi leggja hömlur á neinn eða ætla sér að hafa vit fyrir öðrum. Allir virðast eiga að bera ábyrgð á sjálfum sér frá vöggu til grafar. Jafnframt hefur verið haldið uppi skefjalausum áróðri fyrir áfengisneyslu og er þar skemmst að minnast sjónvarpsauglýsingarinnar þegar forseta bæjarstjórnar sem kom í sjónvarpið og hvatningar hans þó að áfengisauglýsingar séu bannaðar með lögum. En athyglisvert var að hann birtist ekki þegar fréttir voru fluttar morguninn eftir af miklum árangri athafna hans.
    Það virðist þannig mörgum erfitt að tengja saman orsök og afleiðingu, eða a.m.k. að viðurkenna hana fyrir sjálfum sér og öðrum. En hvenær mun ríkisstjórninni finnast mælirinn fullur ef hinir hörmulegu atburðir gera það ekki? Þar við bætist að ríkisstjórnin þrengir nú að eða jafnvel lokar stofnunum sem geta tekið á móti þeim sem fótanna missa af völdum áfengisneyslu. Hvernig verður þá ástandið þegar afleiðingarnar af tvöföldun áfengisneyslu unga fólksins eru komnar fram af fullum þunga, en það er viðurkennd staðreynd að tvöföldun neyslu áfengis eykur miklu meira fjölda áfengissjúklinga.