Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldisverkum

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:41:32 (345)

[17:41]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin þó að ég verði bæði að láta í ljós vonbrigði mín yfir því hversu hægt hefur gengið með aðgerðir og líka undrun á sumum viðhorfum hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra sagði að það væri hafin starfsemi lokaðra deilda og ýmislegt fleira til þess að bjarga þeim sem illa fara en að öðru væri síðan hafinn undirbúningur. En ég held að það komi skýrt fram í þessari þál. og því sem ég hef sagt að það er til þess að koma í veg fyrir að börn og unglingar lendi í þessum voða sem ég tel að það þurfi að gera öflugri ráðstafanir en ekki það að glíma við afleiðingarnar þó að vissulega verði að gera það þegar illa er komið. En aðalatriðið hlýtur að vera að reyna að koma í veg fyrir að svona fari fyrir unga fólkinu. Að vísa því frá og segja að það sé á ábyrgð sveitarfélaganna en ekki Alþingis eða ríkisstjórnar að sinna þessum málum finnst mér furðulegt þegar það er Alþingi sem setur rammann um þær aðstæður sem hafa skapast, eins og t.d. með því að heimila sölu áfengis öls. Það þýðir auðvitað ekkert að segja að sveitarfélögin eigi að taka við vandanum þegar ríkisvaldið skapar hann. Það er þetta sem ég vil leggja áherslu á að verði gert. Og að segja að það sé varlegt að fullyrða að börn og unglingar séu í aukinni hættu þegar það liggur fyrir að áfengisneysla þeirra tvöfaldast. Ég skil satt að segja ekki hæstv. félmrh. sem segir svona lagað. Það er svo ótrúlegt.