Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldisverkum

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:43:41 (346)


[17:43]

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns þá var ég eingöngu að lýsa staðreyndum í málinu og nefndi hér það sem fram hefur komið varðandi sjálfsvíg o.fl. og vitnaði þar í skýrslu lögreglunnar um að dregið hefði úr alvarlegum líkamsmeiðingum. Ég er alls ekkert að gera lítið úr áfengisneyslu unglinga með þeim hætti eins og mér fannst koma fram í máli fyrirspyrjanda. Og þegar fyrirspyrjandi minnist á forvarnastarf og fyrirbyggjandi starf þá er það hlutur sem ég legg mikla áherslu á og er sammála honum um. Ýmis af þeim atriðum sem eru í undirbúningi og ég taldi hér upp lúta að forvarnastarfi og kom það skýrt fram í máli mínu áðan.
    Ég vil nefna það sem einmitt lýtur að forvarna- og fyrirbyggjandi starfi og unnið er að á vegum ráðuneytisins og ég nefndi ekki áðan. Það er undirbúningur að stofnun fjölskylduþjónustu ríkisins, þar sem einmitt verður lögð mjög mikil áhersla á fyrirbyggjandi og forvarnastarf. Veitt verður þjónusta ekki eingöngu fyrir unglinga á aldrinum 12--16 ára eins og er núna hjá Unglingaheimili ríkisins, heldur einnig fyrirbyggjandi og forvarnastarf fyrir yngri börn upp að 12 ára aldri. Ég tel að það sé ómaklegt að haga orðum sínum með þeim hætti sem fyrirspyrjandi gerði að það sé ekkert aðhafst á vegum ríkisvaldsins í þessu efni.