Sjóður til eflingar atvinnumálum kvenna

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:54:56 (350)


[17:54]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að sú hugsun sem býr að baki verkefninu sé góðra gjalda verð og ekki nema gott eitt um hana að segja. En ég vil í ljósi þess sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að fyrir liggur tillaga um úthlutun spyrja ráðherrann hvernig skiptingin er eftir kjördæmum eða ef ekki er hægt að svara því til hlítar hvernig skiptingin er milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar. Og mér finnst, svo að ég gagnrýni þetta pínulítið, einkennilegt á þeim tímum sem lögð er megnáhersla á að frumkvæði og þekking heimamanna eigi að ráða verkefnavali og ákvarðanatöku þá skuli ríkið taka það í sínar hendur að búa til sjóð og útdeila úr honum. Mér hefði fundist eðlilegra fyrst menn vilja á annað borð búa til sjóð að skipta honum þá upp og láta aðra útdeila sem nær eru vettvangi hvort sem það eru sveitarstjórnir, landshlutasamtök eða aðrir aðilar innan kjördæma.