Meðferðarheimilið að Staðarfelli í Dölum

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:58:26 (352)

[17:57]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín á þskj. 50 er til hæstv. heilbr.- og trmrh. og er svohljóðandi:
    ,,Hyggst heilbrrh. tryggja áframhaldandi rekstur meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli?``
    Ástæða þessarar fsp. er sú að vegna síminnkandi framlags til SÁÁ til reksturs meðferðarheimila hafa forráðamenn þeirra samtaka tjáð m.a. þingmönnum Vesturlands að þeir muni ekki geta að óbreyttu annað en lokað þeirri stofnun sem hér um ræðir strax á næsta ári. Nokkuð ljóst er að ef meðferðarheimilinu á Staðarfelli verður lokað þá verður það ekki opnað aftur, m.a. vegna þess að húsakynnin eru ekki í eigu Samtaka áhugamanna um áfengisvarnir. Húsnæðið er gamalt og mundi fljótlega drabbast niður ef það er ekki nýtt. Hér er mikið í húfi. Ekki þarf að rifja upp fyrir hæstv. heilbrrh. gildi þessarar stofnunar. Þær eru honum eflaust ljósar. 30 sjúklingar eru í senn að Staðarfelli og 8 starfsmenn. Árangur af meðferð er einstaklega góður. Staðsetning á heimilinu er slík að sjúklingar njóta mikils næðis, óvenjumikillar náttúrufegurðar og kyrrðar og hundruð manna telja í dag að þeir eigi líf sitt að launa verunni á þessum stað.
    Margoft hefur því verið haldið fram af þeim sem hafa ekki allt of mikið fyrir því að kynna sér hlutina að rétt sé að draga verulega úr meðferðarúrræðum varðandi áfengissýki. Þeir sem því halda fram telja að sífellt komi sömu drykkjusjúklingarnir sér til hressingar fyrir næsta túr en raunveruleikinn er annar. Hér er oftast um mjög ungt fólk að ræða sem leitar sér aðstoðar og þau úrræði sem boðið er upp á að Staðarfelli eru mun ódýrari en önnur úrræði fyrir unglinga.
    Ég heimsótti Staðarfell ekki alls fyrir löngu og það kom mér satt að segja á óvart hve ungir sjúklingarnir voru. Yngsti var 15 ára en algengast var fólk á aldrinum 18--20 ára. Að líta inn á meðferðarstofurnar hjá þessu fólki var eins og að horfa inn í bekk í framhaldsskóla. En þegar vel tekst til að lækna þessi börn áður en lengra er haldið þá er verið að vinna dýrmætt forvarnastarf og auk þess gert á langódýrastan hátt því að önnur meðferðarúrræði eru mun dýrari.
    Í atvinnulegu sjónarmiði hefur þetta mikið gildi fyrir Dalasýslu sem hefur þurft að heyja stöðuga varnarbaráttu í atvinnulegu sjónarmiði. Því er það afleitur kostur frá byggðasjónarmiði engu síður en frá heilbrigðissjónarmiði að loka Staðarfelli. Ég minnist þess í umræðunni um Gunnarsholt hér á dögunum að hæstv. ráðherra benti á að ef lokað yrði í Gunnarsholti færi hluti sjúklinga að Staðarfelli.
    Sú óvissa sem ríkir almennt um heilbrigðisstofnanir í landinu kostar ómæld óþægindi og hlýtur að koma niður á gæðum þjónustunnar. Það er ekki hægt að reka heilbrigðisstofnanir í stöðugri óvissu. Því er það ósk mín að hæstv. heilbrrh. staðfesti það hér, að hann muni tryggja áframhaldandi rekstur að Staðarfelli í Dölum.