Meðferðarheimilið að Staðarfelli í Dölum

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 18:06:23 (355)


[18:06]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. svörin. Hann hefur áhuga fyrir að halda áfram starfsemi að Staðarfelli og er gott að heyra það, en það þarf meira til. Hann sagði réttilega að á fjárlögum væri óbreytt upphæð til SÁÁ, en inni í þeirri upphæð eru sértekjur upp á 17,5 millj. kr. af meðferðargjöldum. Ég held að það sé mikill vafi á að 17,5 millj. kr. innheimtist í meðferðargjöld hjá vímuefnaneytendum. Eins og ég sagði hér áðan, í fyrri ræðu minni, þá er þetta mikið til ungt fólk, mjög ungt fólk. Oft kemur þetta unga fólk frá heimilum þar sem eru miklir erfiðleikar. Og hinir sem koma þarna til meðferðar eru að stórum hluta fólk sem er búið að eiga við langvarandi drykkju og hefur því enga peninga til að borga þetta meðferðargjald. Þannig að þegar upp er staðið þá er miklu minna fjármagn til SÁÁ á þessum fjárlögum heldur en var í fyrra og var það þó of lítið til að hægt væri að halda óbreyttum rekstri.
    Það kom einnig fram í máli 5. þm. Vestf. að af spilakössum hefur SÁÁ 30 millj. kr. Nú er mikil óvissa um það hvernig þeim málum verður háttað. Það er því eðlilegt að menn hafi áhyggjur og það hefði verið mikilvægt að fá skýrari svör frá hæstv. heilbrrh. um þessi mál núna. Ég ætla að minna á það að ríkissjóður fær yfir 6 milljarða árlega frá ÁTVR í hreinar tekjur. Það eru því hreinir smáaurar sem koma á móti til áfengisvarna og meðferðar.