Umfjöllun um skýrslu frá Ríkisendurskoðun í menntamálanefnd

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 13:38:54 (360)


[13:38]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að það væri eðlilegt að settar yrðu verklagsreglur nefnda. Hins vegar vil ég taka það fram í tilefni af orðum hv. þm. Svavars Gestssonar að það er ekki rétt sem hann var að hafa hér uppi áðan að formaður menntmn. hefði ekki orðið við ósk um að halda fund. Það gerði formaður menntmn. í morgun vegna þessa máls. Óskin kom fram sl. sumar og þá voru þingmenn í leyfum þannig að það vannst ekki tími til að halda fund þá.
    En í tilefni af þessu vil ég rifja aðeins upp forsögu þessa máls og minna á það að hér er ekki um þingmál að ræða og það var að ósk fjárln. Alþingis sem beðið var um þessa skýrslu frá Ríkisendurskoðun, þar átti menntmn. enga aðild að. Ég vil einnig minna á það að fjárln. hefur afgreitt þetta mál frá sér með ákveðnum hætti og hefur ekki talið ástæðu til að fara frekar ofan í það. Það komu engar nýjar upplýsingar fram á fundi menntmn. í morgun sem gefa tilefni til frekari skoðunar af hálfu nefndarinnar. Þetta vil ég að komi skýrt fram í dag. Þess vegna taldi meiri hluti menntmn. að það væri ekki ástæða til að halda málinu frekar áfram. Ég hlýt að ítreka það líka að meiri hlutinn hefur auðvitað rétt til þess að hafa þá skoðun á þessu máli og afgreiða með þeim hætti sem gert var.