Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 13:47:58 (366)

[13:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég brjóti ekki þingsköp þótt ég í upphafi máls míns misnoti þetta tækifæri sem ég hef til að þakka hv. þm. fyrir góðar kveðjur sem mér voru sendar í gær í tilefni fimmtugsafmælis míns og gjafir og góð orð sem féllu þar í minn garð. Jafnframt vil ég, virðulegi forseti, koma þeim skilaboðum áleiðis til starfsmanna þingsins.
    Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1994 sem er að finna á þskj. 78 en það er 75. mál Alþingis.
    Frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1994 nær til allra lána sem ríkissjóður hyggst taka eða ábyrgjast á því ári. Þannig næst heildarsýn yfir lánsfjármál ríkissjóðs á einum vettvangi. Framsetning frv. er hliðstæð því sem kemur fram í núgildandi lánsfjárlögum.
    Með frv. er horfið frá því að skipta lántökuheimildum í innlendar og erlendar sérstaklega. Leitað er lántökuheimildar fyrir ríkissjóð, ríkisfyrirtæki og lánasjóði ríkisins til nota innan lands eða utan eftir því sem aðstæður á markaði leyfa hverju sinni. Frá og með næstu áramótum verða nær allar hömlur á fjármagnsflutningum milli landa afnumdar og verða skilin á milli innlendrar og erlendrar lántöku afar óskýr, til að mynda getur íslenskur aðili þá keypt ríkisverðbréf gefin út erlendis eða erlendur aðili eftir atvikum keypt ríkisverðbréf gefin út á Íslandi.
    Þá er rétt að taka fram að ákvæði er varða ráðstafanir í ríkisfjármálum í tengslum við fjárlagafrv. er ekki að finna í þessu frv., enda verður flutt sérstakt frv. til laga um það efni og vonandi verður það lagt fram innan skamms tíma. Þar verður að finna þessi þekktu ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` sem fylgt hafa lánsfjárlögum og lánsfjárlagafrv. í gegnum tíðina.
    Í greinargerð eða athugasemdum við lagafrv. sem hér er til umræðu er fjallað um stöðu fjármagnsmarkaðarins, þróun eftirspurnar og framboðs lánsfjár og um heildarlánsfjárþörf hins opinbera. Ég vísa að mestu leyti til þeirrar greinargerðar sem birtist með frv. Það má segja, virðulegi forseti, að eitt helsta einkenni innlends fjármagnsmarkaðar hafi verið ójafnvægi í eftirspurn lánsfjár og framboði sparifjár. Lánsfjáreftirspurn hefur verið mikil á undanförnum árum og verulega meiri en aukning á innlendum sparnaði. Þetta hefur, ásamt öðru, leitt til hárra raunvaxta hér á landi og mikillar skuldasöfnunar erlendis. Erlendar skuldir þjóðarinnar, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru með því allra hæsta sem þekkist meðal aðildarríkja OECD. Það er að sjálfsögðu, eins og öllum hv. þm. er kunnugt og flestir eru sammála um, afar mikilvægt að snúa þessari þróun við, draga úr lánsfjáreftirspurninni og auka innlendan sparnað. Ég legg áherslu á það hér að það sem einkennir Ísland fyrst og fremst þegar við skoðum þessi mál í samanburði við aðrar þjóðir er hve erlendu skuldirnar eru hátt hlutfall af heildarskuldum.
    Á liðnum árum hefur mikið verk verið unnið í því að markaðssetja ríkisverðbréf. Ríkissjóður hóf markaðssölu á verðbréfum um mitt ár 1992 með útboði á sex mánaða ríkisbréfum. Í nóvember sama ár var byrjað að bjóða út ríkisvíxla til þriggja mánaða. Á árinu 1993 er gert ráð fyrir að seldir verði ríkisvíxlar með útboði fyrir 60 milljarða kr. brúttó og ríkisbréf fyrir 8,8 milljarða kr. Þá er gert ráð fyrir að sala spariskírteina verði alls 9,5 milljarðar kr. á árinu, þar af 7 milljarðar kr. með útboði.
    Á bls. 5 í greinargerð með frv. er mynd af skammtímaávöxtun á fjármagnsmarkaði 1993. Þessi mynd er athygliverð fyrir margra hluta sakir. Fram kemur á myndinni, og reyndar í texta, að vextir ríkisverðbréfa hafa farið lækkandi á árinu ef undan er skilin lítils háttar hækkun í kjölfar gengisfellingarinnar sl. sumar. Það vekur hins vegar athygli að meðalvextir almennra víxillána banka fylgja frá miðju ári engan veginn þeim vöxtum sem myndast á viðmiðunarbréfum ríkissjóðs. Það hlýtur að vera umhugsunarefni að ávöxtun ríkisverðbréfa, sem ræðst alfarið með útboði á markaði, skuli ekki endurspeglast í vaxtaákvörðunum banka á víxillánum. Þetta gefur tilefni til að ætla að samkeppnisumhverfi banka og sparisjóða sé ábótavant og að vextir á óverðtryggðum ríkisverðbréfum hafi takmörkuð áhrif á vaxtamyndun þeirra.
    Í þessu tilviki er þó rétt að það komi skýrt fram að það vandamál sem bankarnir hafa við að stríða er að sjálfsögðu það að þeir þurfa að láta útlán mæta innlánum. Þegar innlán eru verðtryggð þá hlýtur það að gerast í verðbólgu, sem myndast m.a. af gengisfellingu, að hækka verður útlánsvexti til að óvenjumikið tap myndist ekki hjá viðkomandi lánastofnunum. Þetta vandamál er alkunnugt og á því hefur verið tekið og bent á lausnir m.a. í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir viðskrh. og ríkisstjórnina.
    Vegna markaðssetningar ríkisverðbréfa vil ég jafnframt taka fram að á sl. sumri var gerð tilraun með sölu á verðbréfum í erlendri mynt hér innan lands og það er stefnt að því að ríkissjóður gefi út markaðsverðbréf í erlendri mynt til frumsölu hér innan lands fyrir árslok. Hér er um nýmæli að ræða en það er eðlilegt að til þessa ráðs sé gripið nú þegar ljóst er að íslenski lánsfjármarkaðurinn rennur nánast saman við hinn erlenda.
    Þegar litið er á ríkisábyrgðir kemur í ljós að ríkisábyrgðir á fjárskuldbindingum eru allvíðtækar hér á landi. Tveir af þremur viðskiptabönkum eru í eigu ríkissjóðs; allir helstu fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna eru í eigu ríkissjóðs; almenna húsnæðislánakerfið er í höndum ríkissjóðs; auk þess veitir ríkissjóður ábyrgð á lántökum ýmissa aðila. Þetta kerfi þarf að sjálfsögðu að endurskoða ekki síst vegna þess að því fylgja ýmsir ókostir. Til að mynda þeir, annars vegar, að ríkisábyrgð ýtir undir aukna lánsfjáreftirspurn og hins vegar er hætta á því og reyndar kannski dæmi til um það að ekki sé tekið nægilegt tillit til arðsemi þeirra fjárfestinga sem njóta ríkisábyrgðar. Með hliðsjón af þessu er rík ástæða til að notkun ríkisábyrgða verði takmörkuð. Þess má geta í þessu sambandi að í frv. til laga um stofnun Íslenska fjárfestingarbankans hf., sem er í undirbúningi, er ríkisábyrgð á nýjum lántökum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs afnumin með því að starfsemi þeirra er felld inn í bankann. Þannig mun þetta breytast ef slíkt frv. yrði að lögum.
    Virðulegi forseti. Seðlabanki Íslands skiptir eftirspurn eftir lánsfé í fjóra flokka eftir því hver endanlegur notandi fjármagnsins er. Hér er um að ræða ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki og heimili. Þessi skipting er kannski ekki alltaf nákvæm en er þó athygliverð þegar skoðað er hvernig framboð og eftirspurn lánsfjár er á íslenska lánsfjármarkaðnum. Lán til ríkisins jukust um 15,2% á fyrri hluta ársins. En sé leiðrétt fyrir áhrifum gengisfellingarinnar er aukningin um 8--9%. Á sama tíma í fyrra var aukningin um 8,3%. Það er því ekki um verulegan mun á milli ára að ræða. Lánsfjáreftirspurn sveitarfélaganna hélst u.þ.b. óbreytt. Lánsfjáreftirspurn heimilanna jókst um 5,4% á fyrri helmingi þessa árs en 7,6% á fyrri helmingi síðasta árs. Þannig hefur verulega dregið úr lánsfjáreftirspurn þeirra en erfitt er hins vegar að segja á þessu stigi hvort um varanlega lækkun sé að ræða.
    Það hefur verið umdeilt í umræðunni að hve miklu leyti húsbréf hafa áhrif á lánsfjáreftirspurn heimilanna og ætla ég ekki að hætta mér inn í þær deilur. Sumir telja að nýja húsbréfakerfið hafi ýtt undir lánsfjáreftirspurn og skuldir heimilanna en aðrir eru þeirrar skoðunar að hið nýja kerfi hafi þvert á móti dregið úr lánsfjáreftirspurn heimilanna, einkum hjá lífeyrissjóðum og jafnvel hjá innlánsstofnunum. Lánsfjáreftirspurn fyrirtækja er talin hafa aukist um 7% á fyrri helmingi þessa árs en aukningin er 2--3% þegar tekið er tillit til gengisfellingarinnar. Á sama tíma í fyrra er talið að lánsfjáreftirspurn fyrirtækja hafi aukist um 0,8%. Ég hygg að þetta hafi breyst á allra síðustu mánuðum og nú dragi talsvert úr lánsfjáreftirspurn fyrirtækja sem þýðir að ákveðin batamerki eru að koma fram og ég tel það athyglivert hvernig t.d. aukin loðnuveiði hlýtur að hafa skilað sér í betri fjárhagsstöðu þeirra fyrirtækja sem stunda loðnuútgerð.
    Innlendur sparnaður jókst um 4,5% á fyrri hluta ársins og námu þá peningalegar eignir 473 milljörðum kr. í lok júní sl. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun Seðlabanka Íslands er talið að innlendur sparnaður verði um 25 milljarðar kr. árið 1993, þar af kerfisbundinn sparnaður 17 milljarðar kr. eða fimmtungi minni en á síðasta ári. Aukning frjáls sparnaðar verður hins vegar meiri en á síðasta ári, eða 8 milljarðar kr. Áætlað er að heildarsparnaður verði um 26 milljarðar kr. á árinu 1994, eða 6,6% af landsframleiðslu. Reiknað er með að kerfisbundinn sparnaður verði um 18 milljarðar kr. en hinn frjálsi um 8 milljarðar kr. Það skal tekið fram að veruleg skekkjumörk eru þegar talað er um nýjan peningalegan sparnað og oftar en ekki hefur komið fram að áætlanir Seðlabankans hafa breyst í verulegum atriðum. Þetta geta menn séð þegar þeir bera saman áætlanir annars vegar og útkomu hins vegar og stundum hefur skakkað heilmiklu á þessum tölum. Ég geri þó ráð fyrir því nú að upplýsingar séu betri, ekki síst vegna þess að verðlag er með kyrrari kjörum en oft áður á undanförnum árum.
    Ég vek athygli á því að varðandi heimildina sem kemur fram í 1. gr. frv. um lántökur ríkissjóðs þá er um að ræða eignfærð framlög upp á 500 millj. kr. en þar er átt við stofnframlög ríkisins til alþjóðafjármálastofnana og til að kaupa hlutabréf í innlendum fyrirtækjum. Þessi tala er skýrð í athugasemdum með fjárlagafrv. og sýnd á töflu þar á bls. 377. Þess ber að geta að þar er gert ráð fyrir því að ríkið auki hlut sinn í Íslenska járnblendifélaginu hf. á Grundartanga um 200 millj. kr. Það er samkvæmt heimild sem Alþingi veitti fjmrh. á sl. vetri eða við upphaf þessa árs. En þess skal getið að þetta framlag er bundið því, af hálfu ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar, að aðrir eignaraðilar leggi fram sem nemur hlutfalli sínu í eign félagsins á móti og ég tel að það séu góðar horfur á því að það gerist.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að sinni að rekja efni þessa frv. í einstökum atriðum, það skýrir sig sjálft. Þetta er frv. í hefðbundnum stíl og ég óska eftir því í lokin að frv. fái afgreiðslu þingsins og verði sent fjárln. samkvæmt ákvæðum í 25. gr. þingskapalaga en þar er gert ráð fyrir að fjárln. geti vísað málinu til efh.- og viðskn.