Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 14:07:10 (369)


[14:07]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þau voru athyglisverð og hógvær síðustu orðin í ræðu hæstv. fjmrh., þegar hann sagði sem svo að hann sæi ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., hann væri hér að mæla fyrir hefðbundnu frv. til lánsfjárlaga. Það var ekki ætlunin hjá hæstv. fjmrh., ef ég man rétt, þegar hann var nýr í embætti, að hann mundi standa hér tveimur eða þremur árum síðar og í allri hógværð mæla fyrir hefðbundnum frumvörpum. Þá átti að brjóta í blað, eyða halla ríkissjóðs á tveimur til þremur árum, snarlækka erlendar skuldir og á flestan hátt að innleiða nýja tíma í fjármálastjórninni, ef ég man rétt. Nú er sem sagt öldin önnur. Raunsæismaður mikill kominn á stól fjmrh., þar sem áður sat frjálshyggjumaðurinn Friðrik Sophusson, sem öllu ætlaði að breyta og bæta í anda sinna hugmynda.
    Ég ætla að gera lítillega að umtalsefni það sem varð hér tilefni orðaskipta í andsvari áðan. Í fyrsta lagi spurninguna um flokkun erlendrar og innlendrar lántöku samkvæmt þessu frv. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég held að það sé um margt eðlilegt að menn breyti þeirri uppsetningu sem við lýði var á meðan þetta var í föstum skorðum og leyfisbundið og í raun hægt að ákveða með einföldum miðstýrðum ákvörðunum hve mikil erlend lántaka var og í hve miklum mæli t.d. ríkissjóður beitti sér þá að innlenda lánsfjármarkaðnum með erlendum lántökum. Hitt finnst mér öllu lakara ef þessi nýja uppsetning samkvæmt frv. og 6. gr. þess, verður til þess að hæstv. ríkisstjórn hefur í raun og veru enga stefnu hvað æskilegar framkvæmdir og áherslur í þessum efnum snertir. Ég geri mikinn greinarmun á því að þetta sé annars vegar eins og áður var fastákveðið fyrir fram í lánsfjárlagafrv. og hinu að það liggi fyrir stefna hæstv. ríkisstjórnar um mál af þessu tagi, hvað hæstv. ríkisstjórn ætlast fyrir um erlendar lántökur og hver hún telur vera æskileg markmið í þessum efnum.
    Auðvitað hlýtur það að vera keppikeflið, eins og nokkur kostur er, að halda hinum erlendu lántökum í lágmarki og reyna eins og frekast er unnt að fjármagna útgjöld ríkissjóðs og auðvitað annarra aðila eftir föngum hér á innanlandsmarkaði. Á því er auðvitað reginmunur þegar að skuldadögunum kemur hvort við borgum þá peninga út úr landinu í formi vaxta og afborgana af erlendum lánum eða þeir peningar koma aftur í umferð innan lands þegar ríkið borgar af innlendum skuldum.
    Ég vil líka segja að það skiptir miklu máli að mínu mati, ekki síst hvað varðar lánstraust Íslands út á við, hver staða hinnar opinberu erlendu lántöku er. Nú er það auðvitað þannig að þegar lánstraust ríkja er metið þá er í raun fyrst og fremst verið að meta áreiðanleika hinna opinberu skuldunauta. Það er fyrst og fremst horft á það hverjar erlendar skuldir opinberra aðila eru og hver erlend lántaka með opinberri ábyrgð er og hver greiðslugeta þessara sömu aðila er. Þetta sést vel ef skoðaðar eru þær alþjóðlegu mælingar sem helst er stuðst við í þessum efnum og í nýjasta hefti Fjármálatíðinda er ágæt grein þar sem farið er yfir þessar mælingar og gerð úttekt á því hvernig það snýr að mati á lánshæfi Íslands. Þar kemur alveg skýrt fram að það eru einkum og sér í lagi hinar opinberu lántökur sem skipta þarna máli. Þess vegna getur það líka verið sjálfstætt úrlausnarefni hvort heppilegra sé e.t.v. að einkaaðilar fari frekar í vaxandi mæli á erlendan markað en ríkið og aðrir opinberir aðilar fjármagni sín umsvif hlutfallslega í meira mæli innan lands. Vegna þess að það kann að reynast til lengri tíma litið heppilegra fyrir lánstraust þjóðarinnar út á við að það sé sérstaklega haft að markmiði að stemma stigu við erlendum lántökum hins opinbera.
    Það er að vísu svo að samkvæmt þessum listum hefur lánstraust Íslands ekki breyst frá því að mælingar voru teknar upp og Ísland kom inn á þessa lista, bæði hjá Moody's og Standard & Poor's. Það mun hafa verið á árum 1987--1988 sem Ísland kom fyrst inn í þennan samanburð og það hefur haldist nokkurn veginn á svipuðum slóðum þessi ár sem síðan eru liðin, eða um það bil í 20.--25. sæti. Og út af fyrir sig má telja það ekkert slæma stöðu. Þó er ljóst að við erum í hópi þeirra Evrópuríkja og þeirra OECD-ríkja sem lægst eru sett á þessum lista.
    Um erlendar skuldir að öðru leyti vil ég segja það, að það er áhyggjuefni að hlutfall lántöku hinna opinberu aðila sem tekið er erlendis, hefur verið að aukast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég bendi hæstv. fjmrh. á töflu á bls. 16 í greinargerð með hans eigin frv., þ.e. því frv. til lánsfjárlaga sem við nú ræðum. Þar kemur fram að veitt og tekin lán ríkissjóðs flokkast þannig að af teknum lánum, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á síðustu árum, þá hefur heildarlántakan vaxið úr um 30% af vergri landsframleiðslu á árinu 1989 upp í 45% á yfirstandandi ári og áformað er að þetta verði rúm 46% á hinu næsta. En það sem er öllu lakara er að þar hafa erlend lán hækkað að hlutfalli úr 16--18% á árunum 1989--1991 í 22,8% 1992 og 26,3% 1993 og á árinu 1994 er engin tala gefin upp. En það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. fjmrh. getur upplýst okkur um hvort þarna eru jafnvel enn horfur á því að þetta hlutfall fari vaxandi. Þetta er að mínu mati tvímælalaust óhagstæð þróun. Henni þyrfti að snúa við eða a.m.k. að halda þarna í horfinu, þ.e. að hlutfall erlendu lántökunnar af heildarlántökum ríkissjóðs væri ekki á uppleið. Það er ógæfumerki.
    Svo ætla ég lítillega að nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, sem ég vona að sé nú fullkomlega á réttum stað, til að gera athugasemdir við, þó að seint sé, umfjöllun í stefnuræðu hæstv. forsrh. um erlendar lántökur. Ég sé ekki að það eigi annars staðar betur heima, að svo miklu leyti sem því varð ekki við komið í sjálfri stefnuumræðunni, en að gera athugasemdir við það hér.
    Í stefnuræðu forsrh. er með beinlínis villandi hætti fjallað um þróun erlendra skulda og erlendrar lántöku í tíð fyrri ríkisstjórnar og þeirrar sem nú situr. Það er ekki hægt að láta þeim rangfærslum sem þar eru settar fram ómótmælt og ég vil gera það hér með. Hæstv. forsrh. sagði, með leyfi forseta, m.a. eftirfarandi:
    ,,Margoft hefur verið vakin á því athygli að Íslendingar hafi verið að safna erlendum skuldum á undanförnum árum. Auðvitað er það forkastanlegt ef stjórnvöld láta það viðgangast að skuldir þjóðarinnar í útlöndum vaxi stórkostlega þegar engar efnahagslegar ástæður eru til þess, þegar aflabrögð og afurðaverð er hagstætt, eins og var á tímabilinu 1988--1991. Þá voru ytri skilyrði hagstæð en stjórnmálaforustan brást,`` segir hæstv. forsrh. ,,Á undanförnum árum hefur hins vegar verið tekist á við vandann en ekki hlaupist undan honum þótt andróður hafi verið töluverður. Nú er skuldasöfnun Íslendinga erlendis hætt . . .  ,`` sagði hæstv. forsrh. þarna.
    Þetta er rangt. Þetta er í fyrsta lagi rangt vegna þess að erlendar skuldir stóðu um það bil í stað á árunum 1988--1990. Að vísu er það svo að ef árið 1991 er tekið þarna með, þá vaxa erlendar skuldir á nýjan leik. En hæstv. forsrh. ætti þá a.m.k. að sjá sóma sinn í því að láta það koma fram að það ár urðu stjórnarskipti og reyndar situr ríkisstjórn hans meiri hlutann af því ári. Það er þannig, hæstv. forseti, samkvæmt óhrekjanlegum tölum að árin 1988--1990 eru hreinar erlendar skuldir í hlutfalli við t.d. útflutningstekjur, nokkurn veginn þær sömu á þessum árum. Þær taka hins vegar stökk upp á við á árinu 1991 og enn meira stökk á árinu 1992. Þá sat hæstv. ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar að völdum allt árið og hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson fór með það embætti allt það sama ár. Þeir geta því ekki skotið sér á bak við það að það sé við aðra að sakast en þá sjálfa. Ég kann ekki við það, hæstv. forseti, að í jafnmikilvægu plaggi og í sjálfri stefnuræðu hæstv. forsrh. séu staðreyndir meðhöndlaðar með þessum hætti. Ég er t.d. hér með upplýsingar sem ættaðar eru frá Seðlabanka Íslands þar sem fram kemur að hreinar erlendar skuldir í hlutfalli við útflutningstekjur voru á árinu 1988 rétt liðlega 120%, á árinu 1989 um 125% og á árinu 1990 aftur liðlega 120%. Síðan vaxa þessar skuldir í 140% 1991, tæplega 160% 1992 og stefna í tæplega 180% á þessu ári. Þetta eru hreinar erlendar skuldir sem hlutfall af útflutningstekjum. Þetta er að mínu mati einn marktækasti mælikvarðinn á þessa hluti því það eru auðvitað útflutningstekjurnar sem koma til með að þurfa að standa undir greiðslum af erlendu skuldunum. Það eru þær, það er gjaldeyrissköpunin, það eru útflutningstekjur þjóðarinnar sem skipta mestu máli í sambandi við það hvernig okkur gengur að borga af þessum skuldum og hvernig við ráðum við það í framtíðinni.
    Það má nota marga fleiri mælikvarða til þess að skoða þessa hluti, t.d. eru hér samkvæmt töflu í sjálfri þjóðhagsáætluninni, mældar hreinar erlendar skuldir sem prósenta af vergri landsframleiðslu. Þá er að vísu á ferðinni nokkur hækkun milli áranna 1988 og 1989 vegna falls landsframleiðslunnar á þeim tíma, en síðan standa skuldirnar sem hlutfall af landsframleiðslu akkúrat í stað árin 1989, 1990 og reyndar 1991, þegar það er skoðað. Nú geta menn flúið á náðir þess, eins og gert er í greinargerð með fjárlagafrv. og víðar í plöggum hæstv. ríkisstjórnar núna, að segja að það sé ekki rétt og ekki mikil vísindi að skoða þessar erlendu skuldir sem hlutfall af þjóðartekjum, landsframleiðslu eða útflutningstekjum. Það eigi að skoða raunaukningu skuldanna og þá yfirleitt mælt í erlendri mynt. Og það má líka fara út í þann mælikvarða. En það er alveg sama hvernig þetta er skoðað. Skuldirnar hafa stóraukist á tveimur fyrstu árum þessarar ríkisstjórnar og þó að svo kunni að fara, vegna fallandi kaupmáttar og hagstæðra viðskiptakjara að ýmsu leyti, minni viðskiptahalla, þá verði ekki raunaukning skulda mæld í erlendri mynt. Núna milli ára situr þessi ríkisstjórn samt uppi með sennilega einhverja mestu raunaukningu skulda í hlutfalli við landsframleiðslu og á raunmælikvarða þegar tímabil hennar í heild er skoðað. Og fram hjá þeirri staðreynd kemst

hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. eða aðrir ráðherrar ekki, að þetta er í samanburði við það að erlendar skuldir stóðu nokkurn veginn í stað á því árabili sem hæstv. forsrh. gerði að umtalsefni í stefnuræðu sinni, þannig að þessi uppstilling stenst ekki. Þetta eru rangfærslur sem óhjákvæmilegt er að mótmæla og ég geri það hér með og tel mig hafa lokið því, þannig að vonandi skilst það.
    Um vextina hefur mikið verið rætt, hæstv. forseti, og er svo sem kannski ekki mikil þörf á að bæta þar við í þessari umræðu þó að auðvitað sé það morgunljóst að vaxtastigið er ein allra mikilvægasta breytan í allri þessari efnahagsumræðu. Hinir háu raunvextir sem við búum við og sitjum uppi með nú, nánast einir þjóða í þessum hæðum, á sama tíma og vextir erlendis fara nánast alls staðar lækkandi, meira að segja í Þýskalandi, sjálfu höfuðvígi hárra vaxta, undir stjórn þýska seðlabankans. Þar hafa vextir verið að lækka sl. missiri. En ekki á Íslandi, nei takk. Þar skulu þeir vera í þeim himinhæðum sem þeir hafa verið í raun allan valdatíma þessarar ríkisstjórnar og reyndar miklu lengur, þó á köflum hafi tekist að ná þeim eitthvað niður. Staðreyndin er sú að það fer að slaga upp í áratug sem vaxtaokrið hefur viðgengist hér, frá og með því í raun og veru að vaxtaákvarðanir voru gefnar frjálsar í einu vetfangi á árunum 1985 og 1986. Sú ákvörðun var illa grunduð og illa undirbúin. Það var hreint bráðræði að ætlast til þess að hinn íslenski fjármagnsmarkaður, ef svo skyldi kalla, öllu má nú nafn gefa svo sem, gæti bara í einu vetfangi, á grundvelli pólitískrar ákvörðunar, tekið það heljarstökk sem þá var ætlast til að hann gerði. Afleiðingarnar urðu hrikalegar, raunvextir ruku hér upp úr öllu valdi og vaxtamunur hefur alla tíð síðan verið óþolandi mikill. Þessi áratugur er orðinn landsmönnum dýr og verður svo enn frekar á næstu árum ef ekki tekst að snúa ofan af þessu háa vaxtastigi.
    Ég vil lítillega gera einn lið í frv. sérstaklega að umtalsefni. Þó að hæstv. fjmrh. kysi að fjalla ekki um lántökur einstakra aðila hér í umræðu um frv., þá ætla ég að leyfa mér strax við 1. umr. að vekja athygli á einum lið og stöðu eins fyrirtækis sem þarna er að taka erlend lán og kemur fram í þessu frv. og það er Landsvirkjun. Í 4. gr. er Landsvirkjun heimilað að taka allt að 5.900 millj. kr. að láni. Í greinargerð með frv. kemur fram að þetta þarf Landsvirkjun að gera þrátt fyrir að engar meiri háttar framkvæmdir séu fyrirhugaðar hjá fyrirtækinu og eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,, . . .  fer lántakan öll til að endurfjármagna lán sem falla í gjalddaga á næsta ári. Afborganir Landsvirkjunar á næsta ári eru áætlaðar samtals 6.100 millj. kr. `` Með öðrum orðum, það koma aðeins 200 millj. kr. út úr rekstri fyrirtækisins til þess að ganga upp í afborganir af skuldum. Annað árið í röð verður Landsvirkjun að slá, erlendis væntanlega, ný lán nokkurn veginn fyrir öllum afborgunum sínum vegna skulda. Þetta er auðvitað augljóst hættumerki sem þarna er á ferðinni og vekur miklar spurningar um það hvernig fjármálastjórn hjá þessu fyrirtæki hefur verið og hver staða fjárfestinga og í raun og veru þessa fyrirtækis er, sem, eins og kemur fram í greinargerðinni, er þó ekki að standa þessi árin, eða þetta ár a.m.k., í neinum meiri háttar framkvæmdum. Maður skyldi þá ætla, ef allt væri með felldu, að við slíkar aðstæður tækist fyrirtækinu að borga skuldir sínar eitthvað niður, en svo er ekki. Þær munu nokkurn veginn standa í stað miðað við þetta, þ.e. fyrirtækið tekur erlent lán sem nemur nokkurn veginn þeim afborgunum sem það situr uppi með. Og ef ég man rétt, var staðan eiginlega alveg hin sama á síðasta ári, nema þá voru einhverjar lítils háttar leifar af framkvæmdum eftir frá fyrri tíð sem fyrirtækið var að fjármagna.
    Þetta hlýtur óhjákvæmilega að koma til skoðunar og hv. þingnefndir sem fá málið til umfjöllunar hljóta að fara ofan í saumana, ekki síst á þessari stöðu.
    Ég vil svo að lokum segja, hæstv. forseti, að í raun og veru gefur þetta frv., ekki frekar en sjálft fjárlagafrv., tæplega tilefni til mikilla umræðna á þessu stigi málsins, ósköp einfaldlega sökum þeirrar miklu óvissu sem uppi er um stefnu hæstv. ríkisstjórnar í fjármálum og peningamálum. Það er yfirlýst að fjárlagafrv. er í raun og veru einungis vinnuskjal, drög að frv. og annað er væntanlegt hér á borð þingmanna innan skamms þegar hæstv. ráðherrar hafa komið sér saman um breytingar á því. Og skyldi það nú ekki fara svo að einnig þetta lánsfjárlagafrv. gæti reynst hálfgert pappírsgagn og einhvers konar drög að frv. þegar til kastanna kemur. Það eru t.d. ekki mikil vísindi sem standa á bak við áætlaðan halla ríkissjóðs á næsta ári upp á 9,8 milljarða og þegar maður skoðar það í ljósi reynslunnar, allar tölur yfirstandandi fjárlaga sem áttu að verða 6,2 milljarðar stefna núna í 12,3 eða tvöföldun. Hvað segir okkur þá að við gætum ekki staðið frammi fyrir næsta sambærilegum hlutum þegar kemur inn á árið 1994? Ef við beitum tvöföldunarreglunni yrði hallinn þá 20 milljarðar tæpir. Ef við tökum sömu upphæð sem munar, 6 milljörðum, yrði hann 16 milljarðar. Það munar nú um minna. Og áætlanir um erlendar lántökur og innlendar verða harla marklitlar þegar áætlanagerðin að öðru leyti er með þessum vikmörkum sem raun ber vitni.
    Ég sé svo ekki, hæstv. forseti, ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi og vona að hæstv. fjmrh. svari þeim spurningum, tveimur eða þremur, sem ég hef fyrir hann lagt.