Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 14:27:45 (370)

[14:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði. Ég ætla að geyma mér spurningar og svör til seinni tíma.

En það er eitt atriði sem ég held að sé mikilvægt að komi hér fram og það er um erlendar skuldir og skuldahlutföll, annars vegar þjóðarinnar og hins vegar ríkisins.
    Ég vil byrja á því að segja að það er augljóst að ríkisskuldirnar munu vaxa sem hlutfall af framleiðslu og að erlenda hlutdeildin mun vaxa í heildarskuldum ríkisins, því miður. Þetta er ekki þróun sem við viljum sjá.
    Ég bendi á að það er ekki einungis halli ríkissjóðs sem veldur þessu heldur líka yfirtaka á ýmsum skuldum sem fer beint yfir á efnahagsreikning eins og t.d. þegar teknar eru yfir skuldir Byggðastofnunar, Framkvæmdasjóðs o.s.frv. En ég minni líka á að á árinu 1992 voru tekin erlend lán upp á milli 5--6 milljarða vegna hallans 1991, þannig að við megum ekki einungis horfa á ártölin. Í febrúar 1992 voru tekin lán upp á 5--6 milljarða vegna hallans 1991, en yfirdráttur skulda í Seðlabankanum var um 10 milljarðar þegar hv. þm. lauk störfum sínum sem samgrh. og landbrh. En þetta hefur ekkert að gera með skuldasöfnun þjóðarinnar því að ef við skoðum skuldasöfnun þjóðarinnar er besti mælikvarðinn að líta til viðskiptahallans. Það er spáð að hann verði núna 5,5 milljarðar og í þjóðhagsáætlun segir:
    ,,Þessi halli felur í sér að skuldasöfnun Íslendinga erlendis hefur verið stöðvuð og reyndar lækka erlendar skuldir þjóðarbúsins lítillega að raungildi milli áranna 1992 og 1993.``
    Þetta þýðir raungildi, þetta er ekki hlutfall af framleiðslu heldur raungildi í erlendum verðmæli, á gengi, en tekið tillit til verðbólgunnar annars staðar þannig að það er verið að tala um kaupmátt hinna erlendu skulda. Þetta vildi ég að kæmi fram og sýnir að forsrh. fór að sjálfsögðu ekki með staðlausa stafi í sinni ræðu.