Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 14:35:27 (374)


[14:35]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur frammi er fyrst og fremst lagt fram til þess að við höfum tölu sem á að loka fjárlagagatinu fyrir næsta ár. Það er það mikið óunnið hjá fjárln. og ríkisstjórnin hefur haft uppi orð um það að endanlegur halli eigi að vera einhver allt annar en sá sem er í núverandi frv. og ef ég man rétt þá er hæstv. fjmrh. að vinna að því með hæstv. utanrrh. þannig að væntanlega breytist þessi tala sem við erum að vinna hér með í því hlutfalli sem þeim tekst að lækka fjárlagahallann og ekki get ég óskað þeim annars en velfarnaðar í því starfi.
    En framlagning þessa máls gefur hins vegar tilefni til almennra umræðna um stöðu íslenska þjóðarbúsins og um stöðu peningamarkaðarins. Ég ætla ekki að fara í þær þrætur sem hér hafa verið um hlutfall erlendra skulda í tíð þessarar ríkisstjórnar eða þeirrar fyrri. Það er að nokkru leyti deila um keisarans skegg. Ég hefði frekar viljað líta á þetta þannig að ég horfi á fyrirtækið Ísland og reyni að greina þetta eins og menn væru að horfa á rekstrar- og efnahagsreikning hjá fyrirtæki. Þá er það svo að skuldastaðan, eins og það heitir á fyrirtækjamáli, eiginfjárstaðan, segir ekki nema lítið af sögunni. Það sem ræður úrslitum um það hvort fyrirtæki lifir eða deyr --- og það á alveg eins við um fyrirtækið Ísland --- er greiðslugetan til þess að standa við sínar skuldbindingar, bæði vexti og afborganir af lánum. Ég held að okkur væri svolítið hollt að horfa á þetta út frá þessum sjónarhóli. Ef við gerum það þá er það sem skiptir langsamlega mestu máli að auka tekjurnar, það gera fyrirtækin, fyrirtækið Ísland yrði þá að gera það með því að örva útflutning og örva innlenda framleiðslu. Það er hin eina raunhæfa leið til þess að ná niður skuldunum við útlönd. Við erum ekki að fara þá leið núna, sú leið sem við erum að fara núna er samdráttarleiðin. Það er hægt að réttlæta hana í sumum tilfellum en ég held að það sé ekki hægt að réttlæta hana eins og nú er.
    Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði að það að viðskiptahallinn stefnir núna ekki nema í 5 milljarða er að vissu leyti hættumerki. Það er merki um það vegna þess að þetta gerist á samdráttartímum. Við erum ekki að ná viðskiptahallanum niður með því að auka tekjur okkar og borga af lánum okkar heldur með hreinum samdrætti sem kemur m.a. þannig fram að fjárfestingar í landinu eru komnar undir hættumörk. Í okkar tæknivædda þjóðfélagi þar sem breytingarnar eru eins örar og nú er þá verður afar erfitt fyrir okkur að komast upp úr öldudalnum og ná okkur á strik sem framleiðslu- og útflutningsþjóð ef fjárfesting verður til lengri tíma eins lítil og hún er í dag.
    Það er hins vegar samhengi á milli þessa hlutar og vaxtastigsins í landinu. Við erum komnir með vaxtastig í okkar þjóðfélagi í dag sem beinlínis verkar orðið lamandi á atvinnuvegina, verkar lamandi á nýsköpun.
    Hæstv. fjmrh. veifaði hér mynd áðan af bls. 5 í frv. sem er afar athyglisverð. Hvað segir þessi mynd? Hún segir mér það að íslenskir atvinnuvegir, íslensk fyrirtæki hafa á því ári sem nú er að líða búið við raunvexti á skammtímafjármagnsmarkaði á sínu skammtímafjármagni á bilinu, ef ég get lesið beint út úr þessu, svona 13--20%. Það er einu sinni svo, hæstv. ráðherra, að fyrir fyrirtæki sem fær enga hækkun á sínum tekjum eða heimili sem ekkert hækkar sín laun eru nafnvextirnir á hverjum tíma raunvextir. Þetta staðfesti hæstv. forsrh. er ég átti orðastað við hann um þetta mál í fyrradag. Og nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann er sammála mér og hæstv. forsrh. um það að eins og nú er þá séu nafnvextirnir sem fyrirtækin eru að borga í raun raunvextir. Þetta er þeim mun alvarlegra sem sú staða er uppi í okkar þjóðfélagi í dag að fyrirtæki eru að verulegu leyti að fjármagna sig á skammtímaskuldbindingum.
    Ég vil í framhaldi af þessu spyrja hæstv. fjmrh. því nú er það er eitt af höfuðhlutverkum ríkisstjórna að sjá til þess að peningakerfi í landinu sé virkt og það þjóni þeim tilgangi sem það á að gera. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Sá ríkisstjórnin ekki fyrir hvað mundi gerast í kjölfar gengisfellingarinnar í sumar varðandi verðtryggt fjármagn? Sá ríkisstjórnin það ekki fyrir að ef lánskjaravísitalan fengi að leika lausum hala eins og hún hefur gert þá mundu skammtímaskuldbindingar rjúka upp úr öllu valdi? Eða hélt ríkisstjórnin í einfeldni sinni að þar sem skammtímaskuldbindingar eru almennt ekki verðtryggðar í dag þá mundu þær ekki hækka? Vissi hæstv. ríkisstjórn ekki að innlán bankanna eru nánast öll verðtryggð þannig að það gat ekki farið öðruvísi meðan lánskjaravísitalan er í sambandi en að vextirnir stigju upp úr öllu valdi eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sumar?
    Ef ekki verður horfið af þessari braut þá gerist ekkert annað en það á næstu missirum að fjármálakerfið í landinu, bankakerfið og sjóðirnir sem eiga að standa undir fjármögnun fyrirtækjanna, hrynur. Það er svo einfalt. Það mundi kannski einhver segja að menn ættu ekki að ræða svo viðkvæm mál úr ræðustól Alþingis en mér er annað ómögulegt. Það verður að rjúfa þann vítahring sem peningamarkaðurinn íslenski er kominn í því til viðbótar við það að lánskjaravísitalan hafi lyft öllum vaxtafætinum upp vegna þess að kaffi, sykur, olía og fleiri vörur sem við fluttum inn hækkuðu í verði, eins og það er nú rökrétt, til viðbótar við það eru bankarnir að taka í vaxtamun inn fjármögnun á afskriftareikningum sem er langt umfram það sem hægt er að ætlast til að þeir beri sem enn standa í skilum við bankakerfið. Þetta skrúfar vítahringinn áfram: Eftir því sem vaxtamunurinn og vextirnir hækka eru fleiri sem ekki geta staðið í skilum.
    Ef ég lít yfir farinn veg tvö síðustu árin þá tel ég að hvergi hafi núverandi ríkisstjórn tekist eins hrapallega til eins og varðandi þessi atriði, enda hefur hæstv. ríkisstjórn aldrei fengist til þess að horfast í augu við vandann. Hæstv. viðskrh. sagði okkur þegar við byrjuðum að ræða um þetta fyrir tveimur árum síðan að þetta mundi allt saman lagast ef við næðum ríkissjóðshallanum niður. Það hefur ekki gerst enn þá. Því miður hefur ríkissjóðshallinn lítið náðst niður en þrátt fyrir það að spenna á lánsfjármarkaði hafi minnkað þá hefur kostnaður fyrirtækjanna og heimilanna í landinu af lánsfé ekki lækkað, þvert á móti hækkað.
    Næsta kenning var sú að það þyrfti að breyta lögum, við byggjum hér við fákeppnismarkað, það þyrfti að leyfa erlendum fjármálastofnunum að vinna og starfa hér á landi og þá mundi þetta breytast. Við gengum í þetta, stjórnarandstaðan, með ríkisstjórninni að breyta lögum á þennan hátt. Það varð engin breyting. Næsta kenning var sú að hæstv. fjmrh. sagði á síðasta ári að þetta væri eiginlega allt því að kenna að ríkissjóður gæti fjármagnað sig fyrirhafnarlaust með yfirdrætti á Seðlabankanum. Það er skýrt frá því í þessu frv. að þessu sé verið að breyta en vextirnir hækka enn. Vextirnir sem fyrirtæki og heimili í landinu þurfa að borga. Þeir hafa aldrei verið hærri en núna seinni partinn í sumar og á síðasta ársfjórðungi ársins 1991. Í þessum tilfellum fóru nafnvextir upp fyrir 20% 1991, upp undir 20% núna og allt þetta hafa þeir aðilar þurft að bera bótalaust sem ekki hafa haft hækkun á sínum tekjum á móti.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. fjmrh., ef menn ætla að ræða um raunvexti, hvernig skyldu raunvextir þeirra aðila á Íslandi sem á síðustu árum hafa lagt sína peninga í húsnæði, hvort sem það er atvinnuhúsnæði eða íbúðarhúsnæði, hvernig skyldu raunvextirnir vera þar, ef hæstv. ráðherra færi að reikna vísitölu húseigna sem hafa lækkað í verði? Þeir væru einhverjir aðrir og allt hærri.
    Niðurstaða mín er þessi: Það vandamál sem við erum að slást við hér varðandi vextina er að verulegu leyti kerfislægt og ríkisstjórnin hefur ekki enn þá tekið á því. Hún virðist vera að vakna til meðvitundar eftir að skýrslan um innlenda lánamarkaðinn kom út núna á dögunum en það bólar ekkert á aðgerðum. Það eru eingöngu óljós ummæli um það. Hæstv. fjmrh. sagði við 1. umr. um fjárlögin um daginn að það væru ótal leiðir til að lækka vextina og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvaða leiðir hann sér í því samhengi.
    Virðulegi forseti. Ég fer ekki að lengja mál mitt mikið úr þessu. Ég sagði það við hæstv. forsrh. fyrir tveim dögum að ég hefði haldið þessa vaxtaræðu yfir núv. ríkisstjórn bráðum í tvö ár með reglulegu millibili og ég mundi halda hana á hverjum degi framvegis ef til þess gæfist tækifæri. Hér er eitt tækifærið og ég hef flutt þessa ræðu einu sinni enn. Því það er ófært að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn horfi upp á það að peningakerfið sé að þróast á þann hátt sem það hefur verið að gera. Þetta er e.t.v. engum aðila eins hættulegt og bönkunum sjálfum og ég held að það sé reyndar að renna upp ljós fyrir þeim sem þar starfa. En það er enginn aðili í þjóðfélaginu sem getur leitt alla hlutaðeigandi aðila saman, eini aðilinn sem það getur gert er ríkisstjórnin. Hún getur haft forgöngu um lækkun vaxta því ég leyfi mér að fullyrða að það sé að skapast skilningur fyrir því í þjóðfélaginu að svo verði að vera. Fjármagnseigendur voru ekki tilbúnir til þess á árinu 1990 eins og launþegar að horfast í augu við staðreyndir efnahagslífsins. Horfast í augu við það að ekki væri hægt að fara fram á meira, krefjast meira en þjóðarbúið stæði undir. Þeir hafa enn þá staðið fastir á því að þeim bæri að fá allar hækkanir í okkar þjóðfélagi upp bornar í hækkuðum vaxtafæti í landinu. Þessu verður að linna og á þessu verður að taka.
    Að lokum, virðulegi forseti, varðandi ríkissjóðshallann sem slíkan sem endurspeglast í þessu frv. þá hef ég löngum litið þannig á að ríkissjóðshallinn sem slíkur væri kannski ekki vandamálið. Við þekkjum þjóðir í nágrenni okkar sem eru í raun með miklu hærri ríkissjóðshalla heldur en við sem hlutfall af sinni framleiðslu og sem hlutfall af sínum fjárlögum. Þetta gerir það að verkum að umræða um ríkissjóðshalla á Íslandi hlýtur að vera með nokkuð öðru sniði heldur en í okkar nágrannalöndum.