Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:06:16 (377)


[15:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í fyrstu viku ágústmánaðar lagði viðræðunefnd Bandaríkjanna fram tillögur um umtalsverðar breytingar á starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi. Rúmum tveimur vikum síðar lögðu fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar fram ítarlegar tillögur um þau sjónarmið sem ríkisstjórn Íslands vildi að ættu að ríkja í samningum milli Íslands og Bandaríkjanna í þessum efnum.
    Það hefur legið fyrir í um það bil tveggja mánaða skeið að bæði hafa Bandaríkin sett fram ítarlegar tillögur um breytingar á umsvifum Bandaríkjahers á Íslandi og ríkisstjórn Íslands hefur sett fram gagntillögur. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hefur hæstv. utanrrh. neitað að upplýsa utanrmn. um það hverjar eru tillögur Bandaríkjanna og einnig neitað að upplýsa utanríkismálanefnd um það hverjar eru tillögur íslensku ríkisstjórnarinnar.
    Samkvæmt lögum ber ríkisstjórn Íslands að hafa samráð við utanrmn. um mótun utanríkisstefnu. Tillögur ríkisstjórnar Íslands um svo veigamikið atriði eins og breytingar á samstarfi Bandaríkjanna og Íslands um herstöðvar á Íslandi eru grundvallarþáttur í íslenskri utanríkisstefnu. Það er því að mínum dómi tvímælalaust lögbrot að hæstv. utanrrh. hefur ítrekað neitað að upplýsa utanrmn. um það hverjar eru hans

tillögur og ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það var hugsanlega hægt að réttlæta það að verða við ósk Bandaríkjanna um að greina ekki frá tillögum Bandaríkjanna ef þess var óskað af hálfu Bandaríkjanna en það er á engan hátt hægt að réttlæta það að þeirri stofnun, sem samkvæmt stjórnskipun lýðveldisins er samráðsaðili ríkisstjórnar Íslands, sé neitað um slíkar upplýsingar.
    Í Morgunblaðinu sl. laugardag birtist frétt um það að innan bandaríska stjórnkerfisins sé verið að móta tillögur sem geti falið það í sér:
    Í fyrsta lagi að Bandaríkjaher hverfi algjörlega brott af Íslandi.
    Í öðru lagi að verulegar breytingar verði á umsvifum hans og nánast eingöngu verði um hreyfanleika að ræða en ekki varanlega dvöl.
    Í þriðja lagi að umsvifin verði minnkuð allverulega þó að hér verði áfram eingöngu það sem kallað er lítil flotastöð.
    Það er athyglisvert að þótt hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafi reynt að bera þessa frétt til baka gera þeir það með þeim hætti að greinilegt er að hér eru á ferðinni töluverð tíðindi. Í yfirlýsingu sem utanrrn. gaf út í gær, 18. okt., kemur það fram að utanrrn. neitar að þrjú af þeim efnisatriðum sem Morgunblaðið nefnir í frétt sinni hafi komið til umræðu. En þögnin um önnur þrjú efnisatriði hrópar mjög hátt í tilkynningu utanrrn. Í tilkynningu utanrrn. segir ekkert um þá tillögu sem kölluð er tillaga númer 2 í frétt Morgunblaðsins, þ.e. hugmyndir Bandaríkjanna um að hér verði eingöngu hreyfanlegur herafli. Í öðru lagi kemur ekkert fram í greinargerð og fréttatilkynningu utanrrn. um þá hugmynd að herstöðinni verði breytt í litla flotastöð. Í þriðja lagi kemur ekkert fram um tillögur íslenskra stjórnvalda.
    Ég óskaði eftir því við hæstv. utanrrh. að hann gerði þinginu grein fyrir hvernig þetta mál væri á vegi statt. Því miður varð hæstv. utanrrh. ekki við þeirri ósk. Ég hef þess vegna talið nauðsynlegt að kveðja mér hér hljóðs utan dagskrár og spyrja hæstv. utanrrh.:
    1. Hvenær telur hann tímabært að aflétta þeirri þögn sem hann hefur samþykkt í þessu máli?
    2. Telur hann ekki tímabært að nú þegar verði hann við þeirri ósk að greina utanrmn. frá tillögum íslenskra stjórnvalda í þessu efni í samráði við lagaskylduna um samráð við utanrmn.?
    3. Hvers vegna ríkir þögn í fréttatilkynningu utanrrn. um svo mörg höfuðatriði í frétt Morgunblaðsins?
    4. Er ekki tímabært að íslensk stjórnvöld hefjist nú handa til að undirbúa viðbrögð okkar Íslendinga við brottför bandaríska hersins eða verulegri minnkun umsvifa hans? Þá á ég við stórkostlegt átak í atvinnumálum Suðurnesja. Þar á ég við að sá mikli húsakostur sem senn mun standa auður, flugskýli, skálar, íbúðablokkir og fjölmargt annnað verði nýttur í þágu atvinnuöflunar hér á landi (Forseti hringir.) en ekki sé beðið aðgerðalaust eftir því að Bandaríkin framkvæmi það sem þau eru greinilega nú þegar búin að ákveða, að minnka umsvif sín hér.
    Ég vona að lokum, virðulegi forseti, að þessi þögn og þessi tregða hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar boði ekki það að ríkisstjórnin sé að reyna af annarlegum fjárhagslegum hagsmunum (Forseti hringir.) fáeinna fjölskyldna, sem hafa verið eignaraðilar í verktakafyrirtækjunum á Íslandi, að knýja Bandaríkin til að halda áfram hernaðarumsvifum á Íslandi sem þau vilja nú hætta.