Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:12:15 (378)


[15:12]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Í tilefni af þeim orðum sem hv. 8. þm. Reykn. lét falla hér áðan um að það væri um tvímælalaust lögbrot að ræða hvernig á þessu máli hefði verið haldið gagnvart hv. utanrmn. þá vil ég andmæla þeim málflutningi. Ég tel að hér sé ekki um lögbrot að ræða. Hins vegar tel ég og hef látið þá skoðun í ljós annars staðar og vil ítreka hana hér að sú þögn sem hefur ríkt um þetta mál í utanrmn. og gagnvart utanrmn. sé farin að skaða málið sjálft og það er nauðsynlegt til að gróusögur séu ekki fluttar í fréttum eða annars staðar um þetta mikilvæga mál að þingnefndinni sé skýrt frá þessu og helst sé skýrt frá því á opinberum og almennum vettvangi þannig að menn átti sig á þeim atriðum sem hér eru til umræðu.
    Ég vil taka það fram einnig að Alþingi hefur oftar en einu sinni fjallað um þetta mál á þeim viðræðuferli sem hófst við Bandaríkin í september fyrir rúmu ári og öll meginatriði málsins liggja skýr og ljós fyrir. Það stendur ekki til að rifta varnarsamstarfinu eða slíta því góða samstarfi sem verið hefur á milli Íslands og Bandaríkjanna um varnar- og öryggismál allt frá árinu 1949 eða 1951. Hins vegar virðist vandinn vera sá sem margir eiga við að etja sem eiga í viðræðum við Bandaríkjastjórn að það tekur sinn tíma í Washington að komast að niðurstöðu og taka ákvarðanir um mál sem þessi. Ég vona að utanrrh. og utanrrn. verði kleift að fá sem fyrst þau svör frá Washington að unnt sé að ræða þetta mál og ítreka það sem fram hefur komið í utanrmn. og ég hef áður lagt áherslu á við hæstv. utanrrh. að áður en næsta viðræðulota verður í þessu máli á milli Íslands og Bandaríkjanna verði utanrmn. skýrt frá öllum málavöxtum.