Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:31:37 (385)

[15:31]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var nú þakkarvert að hæstv. utanrrh. fékk loksins málið þó að við yrðum að vísu ekki miklu nær af svörum hans. Hæstv. ráðherra getur auðvitað ekki vikið sér undan því að veita upplýsingar um stórmál af þessu tagi eða a.m.k. að skýra frá því hvenær þess megi vænta að upplýsingar verði fram reiddar.
    Varðandi það atriði að með því að fallist var á að sýna Bandaríkjamönnum trúnað í þessum viðræðum sé þar með ekki hægt að eiga lögbundið samráð við utanrmn., þá hafna ég þeirri lögskýringu af þeirri einföldu ástæðu að utanrmn. er bundin trúnaðarskyldu í störfum sínum og henni er vel treystandi fyrir þessum upplýsingum. Hann er heldur geðlítill hv. formaður utanrmn. að koma hér upp og kyngja því í raun og veru með ummælum sínum að utanrmn. sé ekki treystandi fyrir svona heitum upplýsingum. Það sé eðlilegt að ríkisstjórnin liggi á þeim og afhendi þær ekki utanrmn. þó svo að utanríkismálanefndarmenn séu samkvæmt lögum bundnir trúnaði í störfum sínum. Auðvitað á sá trúnaður að ná yfir svona upplýsingar og ég spyr hæstv. utanrrh.: Var Bandaríkjamönnum lofað einhverjum hástigstrúnaði í þessu sambandi, einhvers konar ,,top secret``-meðferð á málinu þannig að það mætti ekki einu sinni upplýsa utanrmn. um það? Það er stigsmunur á því og meira en það, líka eðlis, að hafa samráð við utanrmn. og hinu að afhenda almenningi eða fjölmiðlum upplýsingarnar og mér kemur í hug að það hafi verið þess konar trúnaður sem Bandaríkjamenn hafi verið að ræða um en ríkisstjórnin hafi kosið að skjóta sér á bak við það til þess að þurfa ekki að upplýsa málið.
    Svo segi ég það, hæstv. forseti, að það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að nú hillir undir það að erlendur her hverfi af landinu og ég vona það og vænti þess að til þess komi aldrei, aldrei, að við Íslendingar lendum í þeirri ógæfu og þeirri niðurlægingu að biðja erlendan her að vera hér lengur í landinu en hann vill sjálfur.