Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:33:58 (386)


[15:33]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan að hann hefði talið sér skylt að verða við þeirri ósk Bandaríkjamanna að skýra ekki frá þeirra tillögum og út af fyrir sig get ég skilið það. En ég skil hins vegar ekki að hann geti lofað Bandaríkjamönnum því að skýra ekki utanrmn. frá þeim tillögum sem hann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gerir. Hann sagði einnig áðan að hann hefði að vísu gert það, en það hefði verið gert í þeirri trú að þessar umræður tækju stuttan tíma, langtum styttri tíma en nú hefur orðið. Tíminn er sem sagt orðinn langtum lengri en gert var ráð fyrir og ég vil spyrja hæstv. utanrrh. að því: Er ekki rétt að eyða þessari leiðu umræðu og þeirri óvissu sem um þetta ríkir með því að kalla hið fyrsta saman fund utanrmn. og gera nefndinni nú grein fyrir því án tafar hverjar gagntillögur Íslendinga í þessu máli eru þótt jafnvel ráðherrann treysti sér ekki til þess að skýra frá því sem Bandaríkjamenn lögðu til? Ég tel að með því móti væri þeirri tortryggni sem skapast hefur að verulegu leyti eytt.