Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:35:37 (387)


[15:35]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að það komi fram vegna þess að utanrrh. er nú að skjóta sér á bak við vilja Bandaríkjamanna um leynd að hæstv. utanrrh. og embættismenn utanrrn. sögðu á sínum tíma að það hefði einnig verið ósk íslensku viðræðunefndarinnar að leynd hvíldi í málinu. Það var það sem utanrrh. sagði áður. En það er nýtt hjá honum að vera nú bara að skjóta sér á bak við Bandaríkin.
    Það er líka mjög athyglisvert að þó að hæstv. utanrrh. hafi nú fengið tvö tækifæri til þess að bera til baka veigamikil efnisatriði í frétt Morgunblaðsins þá hefur hann ekki gert það.
    Eftir fund utanrmn. í gær þar sem hæstv. ráðherra var fullkunnugt um það sem sagt var í nefndinni ákvað hann að birta yfirlýsingu. Þar bar hann ekki til baka þessi tvö efnisatriði. Ég rakti þau síðan hér á nýjan leik og spurði ráðherrann sérstaklega hvort þau væru rétt og þögn hans um þetta atriði var auðvitað mjög hrópandi í ræðunni hér áðan. Þessi tvö efnisatriði snerta tvo af þeim þremur kostum sem raktir eru í frétt Morgunblaðsins. Kostur númer tvö sem Morgunblaðið segir að sé tillaga bandaríska varnarmálaráðuneytisins er að herinn fari sem varanleg stofnun á Íslandi en það verði breytileg umsvif og ákveðinn hreyfanleiki þannig að herþotur geti komið hingað í eftirlitsskyni. Um þessa tillögu bandaríska varnarmálaráðuneytisins sem Morgunblaðið greinir frá segir utanrrh. ekki orð.
    Þriðji kosturinn var að dregið væri verulega úr umsvifum bandaríska hersins og flugvélum fækkað og um þennan kost, númer þrjú, segir hæstv. utanrrh. heldur ekki orð. Það segir sína sögu að þrátt fyrir tækifærið í yfirlýsingu í gær (Forseti hringir.) og ræðuna áðan segir utanrrh. ekki neitt um málið. Þess vegna er ályktunin auðvitað sú að fréttamenn Morgunblaðsins hafa betri aðgang að upplýsingum (Forseti hringir.) um þetta efni en Alþingi Íslendinga og utanrmn. Íslands. Við það verður ekki búið og ég skora á hæstv. utanrrh. að koma nú þegar til fundar í utanrmn. og greina nefndinni frá tillögum íslenskra stjórnvalda í þessum viðræðum, það er tvímælalaus skylda að það sé gert. (Forseti hringir.)
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka formanni utanrmn. fyrir það að hann hefur enn á ný ítrekað þann vilja sinn að fundur í utanrmn. muni fjalla um þetta mál áður en næsti viðræðufundur Bandaríkjanna og Íslands fari fram og það er merkileg reynsla í þessu máli ( Forseti: Tíminn er búinn.) að þurfa að reiða sig frekar á hv. þm. Björn Bjarnason en hæstv. utanrrh.