Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:27:08 (396)


[16:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að fylgjast svo vel með því sem við sjálfstæðismenn samþykkjum á fundum okkar, (Gripið fram í.) okkur veitir ekkert af því að hafa slíkt aðhald. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. sagði að við höfum þurft að hverfa frá þessari stefnu. Hann kýs að kalla það svo að við höfum samþykkt tóma vitleysu, við getum líka orðað það þannig að því miður hafi ástandið leitt til þess að við höfum orðið að stefna að öðrum markmiðum fyrr. En ég skal gjarnan gera það bandalag við hv. þm. að minna hann jafnframt á öll þau ósköp sem Framsfl. hefur samþykkt á sínum flokksþingum og svo skulum við sáttir skoða hvernig okkur hefur tekist báðum um markmið sem við höfum sett á okkar fundum, hver niðurstaðan hefur orðið. Ég er ekkert viss um að það halli mikið á ef við skoðum þetta báðir af fyllstu sanngirni og skal ég gjarnan taka þátt í þeim leik ásamt hv. þm. sem er fundvísastur á það sem hefur kannski aflaga farið í okkar stefnu en ég hef e.t.v. ekki nægilega mikið hirt um að fletta upp í stefnu Framsfl. upp á síðkastið af því að ég hef talið að önnur tæki væru betri til þess að stjórna landinu.