Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:40:13 (403)


[16:40]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. að talsverðu skakkar þegar um er að ræða niðurstöðutölur fjárlaga og því sem mun koma fram sem halli á yfirstandandi ári. Skýringar á þessu er að finna í fjárlagafrv. Þær eru einkum af tvennum toga. Annars vegar hefur samdrátturinn orðið meiri í efnahagslífinu heldur en við áttum von á. Það hefur framkallað bæði á tekjuhlið minni tekjur og á gjaldahlið frekari útgjöld, einkum í formi atvinnuleysistryggingabóta. Hins vegar voru teknar ákvarðanir á vegum ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga sem kosta ríkissjóð talsverða fjármuni, bæði á tekjuhlið með niðurfellingu á sköttum vegna atvinnureksturs og hins vegar á gjaldahlið, m.a. til þess að greiða niður vöruverð í landinu. Þetta eru meginskýringarnar. Þær eru fleiri en þegar málið er síðan skoðan í heild sinni og við berum þetta saman við það sem gerst hefur fyrr þá kemur í ljós að hér fyrir nokkrum árum síðan munaði talsvert miklu meiru yfirleitt á fjárlagatölunum og niðurstöðutölunum og ég tel að sem betur fer hafi þessi mál verið að færast í betra horf þótt aldrei megi búast við því að niðurstöðutölur fjárlaga verði nákvæmlega þær tölur sem koma út í raun.