Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:09:09 (416)


[17:09]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Við 1. umr. fjárlaga sagði hæstv. fjmrh. að ríkisstjórninni hefði borist í hendur plagg þar sem fram kæmi að það væru ótal úrræði til að lækka vexti. Ég taldi þá að það mundi ekki líða á löngu þangað til að vextirnir færu að lækka, ríkisstjórnin notaði eitthvað af þessum óteljandi úrræðum. Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort að viku liðinni hafi ríkisstjórnin ekki tekið neina ákvörðun um að nota þessi góðu ráð þannig að vextirnir fari að lækka strax, sérstaklega þá vegna þess sem hæstv. fjmrh. sagði að honum væri ljóst, og því fagna ég, að mikilvægasta verkefnið nú sé að efla útflutningsatvinnuvegina. Reyndar tel ég að þarna skilgreini hæstv. fjmrh. þörf atvinnuveganna of þröngt því að ég tel að það sé jafnmikilvægt fyrir okkur að auka þá framleiðslu sem sparar innflutning. Ég tel að þar hafi ríkisstjórnin verið á algjörum villigötum þegar hamrað hefur verið á því að það sé hagkvæmara fyrir þjóðina að flytja meira inn og slá lán til þess heldur en að framleiða vöruna hér. Og ekki aðeins framleiðslu á samkeppnisvöru sem sparar gjaldeyri og mikilvægt er að efla heldur einnig þjónustu sem skapar gjaldeyri og flytur þannig inn verðmæti. Þar á ég við ferðaþjónustuna sem ég impraði líka á í umræðu um fjárlagafrv. En ég vil þá spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það hafi ekki komið til umræðu hjá ríkisstjórninni þar sem henni er nú orðin ljós þörf atvinnuveganna að draga eitthvað úr þeirri skattheimtu sem leggja skal á ferðaþjónustuna um næstu áramót.