Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:20:02 (422)


[17:20]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða gífurlegur ótti þetta er hjá hv. þm. vegna landsfundar Sjálfstfl. Hann klifar á þessu stöðugt í sínum ræðum í dag að landsfundur sé fram undan. ( Gripið fram í: Þetta er auglýsing.) Já, ég skal þakka hv. þm. fyrir að auglýsa þennan landsfund. Ég veit að þeir sem horfa a.m.k. á þessa útsendingu í Sýn verða fegnir að fá svona auglýsingu vegna þess að ég vonast til að einhver hluti landsfundarins verði sýndur þar.
    En ég skal skýra þetta aðeins nánar. Vandamálin voru kunn og þau eru m.a. þessi: Þegar virðisaukaksattur lækkar af matvælum sem eru aðföng í ferðaþjónustunni, aðföng hjá þeim hluta starfseminnar sem nú er skattskyldur, þegar virðisaukaskatturin lækkar, þá lækkar ekki matarverðið, ekki kjötið, ekki mjólkin, ekki landbúnaðarvörurnar vegna þess að niðurgreiðslurnar lækka að sama skapi. Þetta þýðir að innskatturinn lækkar og þegar innskatturinn lækkar verður minna til frádráttar frá útskattinum. Það er með öðrum orðum hætta á því að vöruverðið hækki. Auðvitað þarf að koma í veg fyrir slíkt og það verður ekki gert nema með því að gera breytingar á reglum og lögum og að því er unnið. Annað var ekki verið að segja, en það eru vissulega önnur atriði sem þarf að ræða. Síðan minni ég á það, sem ég vona að hafi ekki farið fram hjá hv. þm., að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir áforma einnig, og það liggur fyrir í lögum, það er búið að breyta lögum, að lækka tryggingagjaldið sem er verulegt af ferðaþjónustunni.