Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:23:38 (424)


[17:23]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru ekki eingöngu skattamálin sem snerta ferðaþjónustuna. Það eru önnur mál einnig sem skapa þá umgjörð sem ferðaþjónustan býr við. Ég minni á að það eru gengismálin enn fremur sem hafa áhrif. Þessi ríkisstjórn hefur hagað sínum gjörðum þannig í gengismálum að nú býr ferðaþjónustan, a.m.k. þegar verið er að ræða um erlenda ferðamenn, við betri kjör en oftast áður, við betri samkeppniskjör en oftast áður. Ég vonast satt að segja til þess að það sé virt ríkisstjórninni þegar þetta er sagt því að það eru ekki eingöngu skattarnir sem hafa þýðingu heldur líka gengismálin.