Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:49:09 (436)


[17:49]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. virðast vera ákaflega viðkvæmir fyrir þessari umræðu sem hér hefur orðið sem reyndar vill nú svo til að þeir stofnuðu til, eins og hv. 1. þm. Austurl. Það má kannski segja að það sé af hans hálfu eðlilegt að við hv. þm. Vesturl. bregðumst til varnar þegar fjallað er um þetta mál. En ég lít nú svo á að málefni eins og jarðgöng undir Hvalfjörð varði, eins og kom fram í minni fyrri ræðu, ekki einungis Vesturlandið heldur aðra landshluta. Þetta eru málefni sem eru hagsmunamál þjóðarinnar allrar vegna þeirra miklu flutninga sem fara fyrir Hvalfjörð.
    Um málsmeðferðina almennt þá hef ég ekki haldið því fram að samningurinn sem Spölur vinnur eftir sé óeðlilegur. Hins vegar velti ég því fyrir mér að það hefði kannski verið eðlilegt að þær rannsóknir sem er meiningin að vinna að á botni Hvalfjarðar og nú þarf að fá heimild til þess að afla fjármuna til, hefðu kannski farið fram að einhverju leyti eða öllu áður en gengið var til samninga af hálfu ríkisins við Spöl hf. Þetta er atriði sem ég velti aðeins fyrir mér. En að öðru leyti tel ég ekki nokkur efni til þess að þær nefndir þingsins sem fjalla um þetta mál kalli til einhvern rannsóknarrétt í þessu máli. Ég tel að það hafi verið farið að öllu leyti með eðlilegum hætti að þessu máli og sé enga ástæðu til þess og vona svo sannarlega að þetta mál fái greiðan gang í gegnum þingnefndir.