Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:51:24 (437)


[17:51]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að ég á erfitt með að skilja þennan málflutning hv. 1. þm. Vesturl. Mér er það lífsins ómögulegt að skilja það hvaða erindi hann á upp í þennan ræðustól með slíkan málflutning. Að segja það hér að það séu framsóknarmenn sem hafa vakið upp þessa umræðu. Hvaða umræðu? Er þetta mál ekki á dagskrá þingsins? Hver hefur sett þetta mál á dagskrá? Eru það við framsóknarmenn? Þetta mál er eðlilega hér á dagskrá og eðlilegt þá að við ræðum málið. Ég vil bara segja það við hv. þm. að jarðgöng undir Hvalfjörð eða vegur um Hvalfjörð er ekkert einkamál Vesturlands. ( StB: Ég tók það fram.) Hv. þm. gerir það ekki í þessum ræðustól, þá er hv. þm. að læða því inn að við sem hér

tölum séum á móti þessari framkvæmd. Ég var að lýsa því yfir að ég er stuðningsmaður þessa máls að rannsóknin fari fram þannig að það liggi ljóst fyrir um arðsemi þessarar framkvæmdar. Þess vegna er hart að liggja undir því frá hv. þm. að hann komi upp trekk í trekk og lýsi því yfir að ég tali hér sem andstæðingur þessa máls. Skilur þingmaðurinn ekki mælt mál, eða hvað?