Fjáraukalög 1992

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:04:06 (442)


[18:04]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er örstutt. Við ætlum okkur að virða leikreglurnar og teljum okkur hafa gert það. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að gerðir voru kjarasamningar og í tengslum við þá var því lýst yfir að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að milljarði yrði eytt til viðhalds og framkvæmda umfram fjárlagatölur yfirstandandi árs. Það er einnig rétt sem kom fram hjá honum að að hluta til voru þetta framkvæmdir sem höfðu verið á fjárlögum ársins á undan og ætlunin var að flytja yfir á þetta ár. En eftir sem áður eru upphæðirnar utan fjárlaga yfirstandandi árs og það er það sem skiptir máli. Ég gerði fjárln. ítarlega grein fyrir þessu og ég vil benda á að í fskj. II með fjáraukalagafrv. fyrir 1993 er greinargott yfirlit yfir þessi framlög til atvinnuskapandi aðgerða. Við munum ekki semja um þetta aftur einfaldlega vegna þess að við gáfum þá yfirlýsingu að þessar upphæðir mundu fara til atvinnuskapandi verkefna. Ef ekki væri hægt að verja þeim til þessara verkefna á yfirstandandi ári mundi ríkisstjórnin beita sér fyrir því að þær færðust yfir á árið 1994 með sama hætti og þær færðust sumar hverjar á milli áranna 1992 og 1993. Þannig að loforð ríkisstjórnarinnar í kjarasamningunum voru þau að sjá til þess að þessar framkvæmdir færu yfir á þessum yfirfærslum og þeim mundi verða ráðstafað algjörlega burt séð frá því hverjar eru fjárlagatölur á næsta ári.