Fjáraukalög 1992

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:08:00 (444)


[18:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að öllum hv. þm. sé það ljóst eftir að hafa séð hvernig þetta fskj. er útbúið og hvernig farið var með þetta mál á sl. sumri það var ekki gerð nein minnsta tilraun til að blekkja einn eða annan í þessu sambandi. Það var heildarupphæðin sem varið er til framkvæmda sem skiptir máli fyrir verkalýðshreyfinguna og Vinnuveitendasambandið.
    Það eru engar áætlanir uppi um það að gera þann hluta milljarðsins sem færist síðan yfir á næsta ár að hluta þess milljarðs sem um ræðir í yfirlýsingunni með kjarasamningunum að öðru leyti. Síður en svo.
    Ég vil af þessu gefna tilefni segja það síðan að ég tek undir það með hv. þm., og við erum sammála um það, að það er til stórra bóta að færa heimildir og reyndar skuldbindingar á milli ára og það hefur sýnt sig að ábyrgð stjórnenda í opinberum rekstri hefur batnað að mínu viti þegar þeim er ljóst að þeir fá að njóta þess ef þeir fara sparlega með fé skattgreiðendanna og eins er ábyrgð þeirra meiri þegar þeim er það fullljóst að þeir þurfa að bera með sér skuldbindingar frá fyrra ári ef þeir hafa ekki staðið sig eins og skyldi.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram því ég hygg að ég og hv. 1. þm. Norðurl. e. séum nokkuð sammála í þessu máli.