Fjáraukalög 1992

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:09:30 (445)


[18:09]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 sem var lagt fyrir þingið í vor. Því miður hlaut það ekki afgreiðslu eins og eðlilegt hefði verið. Nú er það til umfjöllunar að nýju. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt að fjáraukalagafrv. komi sem allra fyrst fram í þinginu þannig að góð og vönduð umfjöllun geti farið fram, bæði í fjárln. og í þinginu. Fjárln. mun að sjálfsögðu taka þetta frv. til ítarlegrar umfjöllunar og gefst því tækifæri til þess fyrir mig að fjalla um það þar og síðar hér við 2. umr. Ég mun því ekki lengja þennan fund með efnislegri umræðu um frv. en vænti þess að það takist að afgreiða það sem allra fyrst héðan frá þinginu.