Ríkisreikningur 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:55:09 (455)


[18:55]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil mjög vel að hv. fjárlaganefndarmenn geri athugasemdir og á von á því að umræður í nefndinni verði um þær færslur sem hafa verið deildar meiningar um. Ég vara hins vegar við að fresta málinu of lengi því hér er um að ræða mál sem Alþingi þarf að afgreiða sem fyrst. Ég vonast hins vegar til þess að ríkisreikningsnefnd skili sínu áliti á þessum viðfangsefnum sem allra fyrst og það geti flýtt starfi nefndarinnar.
    Síðan vil ég einungis segja eitt við viðbótar og það er að jafnvel þótt gerðar séu athugasemdir við ríkisreikning af hálfu Ríkisendurskoðunar þá er það Alþingi sem ræður. Það gerist oft eins og þeir þekkja sem hafa sinnt bókhaldi og reikningsskilum að gerðar eru athugasemdir við reikninga viðkomandi félaga og fyrirtækja þó þannig að aðalfundur samþykki reikninginn með viðkomandi athugasemdum. Þannig er víðast farið að og auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að slíkt verði gert einnig á hinu háa Alþingi því þar með eru tilmælin komin til skila til þeirra aðila sem þurfa að taka á málinu og hv. nefnd, þ.e. meiri hluti nefndarinnar, skilaði á sl. vori einmitt slíkri niðurstöðu og sagði: Við skulum samþykkja frv. en við óskum eftir því að það verði tekið tillit til athugasemdanna í framtíðinni.
    Ég verð að segja það að mér fannst það vera réttlát og sanngjörn niðurstaða sem hefði orðið til þess að hægt væri að ná friði með sæmd í þessu máli.