Ríkisreikningur 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:58:12 (457)


[18:58]
     Sturla Böðvarsson :

    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið þá hefur verið og er ágreiningur um meðferð á ýmsum atriðum í ríkisreikningi fyrir árið 1991 og ekki ástæða til þess að fjölyrða um það sérstaklega eða fjalla á þessu stigi um þau efnisatriði. Fjárln. Alþingis fjallaði mjög ítarlega um ríkisreikninginn, kallaði til sín fulltrúa bæði fjmrn. og Ríkisendurskoðunar og fór yfir málið í heild sinni. Það er alveg ljóst að hér er um mjög flókin og viðamikil mál að ræða og e.t.v. mál sem er auðvelt að hafa mismunandi meiningar um og kannski ekki óeðlilegt að upp komi ágreiningur. En ég vil leggja á það áherslu, virðulegi forseti, við þessa umræðu að það er afar mikilvægt að taka þetta mál núna til umfjöllunar og afgreiðslu og ég tel að ekki eigi að draga afgreiðslu þessa máls, það sé okkur öllum nauðsynlegt að ná niðurstöðu í því.
    Ég hlustaði með athygli á ræður hv. þingmanna og hæstv. fjmrh. og kannski ekki hvað síst ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. sem hefur fjallað mjög mikið um ríkisreikninginn. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt að fjárln. taki þetta mál til afgreiðslu og skoðunar á nýjan leik. Að vísu liggja fyrir nál. bæði frá meiri hluta og minni hluta nefndarinnar en til þess er nú umfjöllun á hinu háa Alþingi og í nefndum þingsins að skoða málin í ljósi hverrar stundar og ég vænti þess að fjárln. í heild sinni nái niðurstöðu í þessu máli þó e.t.v. sé ekki líklegt að það verði ein niðurstaða sem nefndin öll kemst að. En ég vænti þess, virðulegi forseti, að okkur takist að ljúka afgreiðslu á ríkisreikningi fyrir árið 1991 sem allra fyrst.