Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 13:46:00 (459)


[13:46]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil í örfáum orðum taka undir efni þessarar tillögu og fagna því að hún skuli komin fram. Það er ekki eðlilegt hve Ríkisútvarpið--sjónvarp sinnir því illa að útvarpa og sjónvarpa frá ýmsum menningarviðburðum sem hér eiga sér stað. Mér verður þá sérstaklega hugsað til klassískrar tónlistar sem því miður virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá núverandi stjórnendum sjónvarpsins. Þar er oft um gríðarlega gott efni að ræða, efni sem á erindi til allra landsmanna. Og það sama gildir um sýningar Þjóðleikhússins þar sem bæði getur verið um það að ræða að sjónvarpa beint eða taka upp sýningar og sýna þær seinna.
    Nú held ég að ég viti það fyrir víst að leikhúsin láta taka upp sínar sýningar og sama gildir um Íslensku óperuna en það er yfirleitt gert frekar af vanefnum með einni vél til að festa á band þessar sýningar en ekki þannig að þær séu hugsaðar til flutnings í sjónvarpi. Þar verður auðvitað að leggja meira til. Það vaknar sú spurning, sem ég vil beina til flm., hvort hann hafi eitthvað reynt að gera sér grein fyrir kostnaðinum sem þessu fylgir, vegna þess að það er það sem ríkissjónvarpið ber alltaf fyrir sig, að þetta sé svo dýrt. Auðvitað er þetta spurning um forgangsröð og hvaða efni menn velja til sýningar. Við verðum að gera okkur grein fyrir hvað þetta kostar en þar með að ríkissjónvarpið sníði sér þann stakk sem hæfir.
    Ég tek undir það meginefni að þetta verði kannað og að í rauninni beri ríkissjónvarpinu skylda til að sinna efni af þessu tagi og að því þurfi að gefa meira rými í dagskrá ríkissjónvarpsins.