Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 13:48:20 (460)


[13:48]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég stend hér upp til að lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þann efnisþátt sem snýr að því að sýna í sjónvarpi frá Sinfóníunni og Þjóðleikhúsinu, það hefur flm. skýrt og rökstutt í sinni ræðu. Ég ætla fyrst og fremst að koma að einum þætti í framsögu flm. og það var gagnvart því hvernig Sinfónían og Þjóðleikhúsið gætu nýst á breiðari grunni fyrir tónlistarlíf og leiklistarlíf í landinu. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að bæði tónlistar- og leiklistarlíf er með miklum blóma víða um land í formi áhugafélaga bæði um söng, hljóðfæraleik og leiklist. Svo hefur verið um leiklistina um langt árabil. Hins vegar hefur á síðustu árum verið mikil vakning og mikill áhugi gagnvart tónlistarstarfi. Það hefur fylgt í kjölfarið með mikilli eflingu tónlistarnáms víða um land. Við erum farin að sjá hvernig tónlistarskólarnir eru farnir að smita út frá sér í öllu tónlistarlífi. Það er því enginn vafi á því að jarðvegurinn er fyrir hendi og þörfin á þeirri starfsemi sem hér er rætt um.
    Það sem ég vil þá að lokum, virðulegi forseti, leggja áherslu á er að þegar viðkomandi nefnd skoðar þetta mál þá verði það athugað á hvern hátt til að mynda Sinfónían gæti komið tónlistarfólki úti um land til aðstoðar þegar verið er að setja upp metnaðarfull verk. Ég sé það fyrir mér að það geti bæði verið í

formi faglegrar leiðsagnar, það getur verið í formi þess að útvega stjórnendur og hugsanlega í formi þess að útvega hljóðfæraleikara til að fylla upp í til þess að hægt sé að ná saman hljómsveitum til að leika undir. Það hefur til að mynda verið afar ánægjulegt að fylgjast með þróun Kammersveitarinnar á Akureyri á síðustu árum sem er að ná því núna þessar vikurnar að heita sinfóníuhljómsveit og er farin að takast á við verkefni sem menn hefðu ekki einu sinni dreymt um að reyna við fyrir 5--10 árum síðan. Þessi hljómsveit byggir á þeim kjarna sem þarna er, fyrst og fremst tónlistarkennurum á svæðinu og lengra komnum nemendum og tónlistarfólki sem þarna býr. Ég er alveg viss um að svona hluti er hægt að vinna upp þó kannski ekki í alveg sömu stærðargráðu á fleiri stöðum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu en vonast til að við berum gæfu til að afgreiða hana frá þinginu í vetur.