Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 13:52:11 (461)


[13:52]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir að hreyfa þessu verðuga máli um að leita leiða til þess að flutningur verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands geti hafist í ríkissjónvarpinu eða alla vega aukist frá því sem nú er. Það gefst sannarlega ekki oft tækifæri hér á Alþingi til að ræða menningarmál. Nú segir mér svo hugur að það sé líka önnur hlið á þessu máli sem við ættum að huga rækilega að en það er að vekja athygli á hinu fjölbreytta og fjölskrúðuga menningarstarfi sem fer fram á landsbyggðinni og á hvern hátt Ríkisútvarpið gæti í vaxandi mæli komið til móts við þetta mikla starf og gefið landsmönnum öllum kost á að njóta. Það er rétt sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan að tónlistar- og leiklistarstarf er mjög blómlegt um þessar mundir á landsbyggðinni. En þess sjást ekki merki ef við fylgjumst með fréttum og viðburðum í sjónvarpi og útvarpi þar sem fjallað er um þetta starf. Mörg þúsund manns starfa í kórum á Íslandi og taka þar með þátt í mjög mikilvægu menningarstarfi. Ég tel að það gæti orðið mikil hvatning fyrir þetta starf ef Ríkisútvarpið kæmi þarna til liðs með öllum þeim mögulega hætti sem kostur er á. Einnig er það mikil hvatning við menningarstarfið á landsbyggðinni að Ríkisútvarpið gefi því sama gaum og því menningarstarfi sem fram fer hér í Reykjavík. Það verður að segja það eins og er að listflutningur sem birtist í sjónvarpi og hljóðvarpi á fyrst og fremst rætur að rekja hingað á höfuðborgarsvæðið. Það kunna að vera ástæður til þess. Það liggur best við bæði tæknilega og jafnvel fjárhagslega fyrir sjónvarpið og hljóðvarpið að sækja í smiðju til listafólks hér í nágrenni við höfuðstöðvar Ríkisútvarpsins og sannarlega mundi það hafa kostnað í för með sér ef Ríkisútvarpið ætlaði í vaxandi mæli að fara að gefa menningarstarfinu á landsbyggðinni meiri gaum.
    Þess vegna legg ég áherslu á það að þegar þessi tillaga til þingsályktunar verður tekin til skoðunar í viðkomandi þingnefnd þá verði horft á þetta mál á sem víðtækustum grundvelli þótt tillagan sjálf fjalli einvörðungu um verk Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. En ég er viss um að ef Ríkisútvarpið kæmi til liðs við Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveitina með því að sýna meira af verkum þessara ágætu stofnana þá yrði það um leið hvatning fyrir Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveitina til að gera enn betur.
    Ég vil leggja á það áherslu að það er unnið mjög gott starf í Þjóðleikhúsinu og Þjóðleikhúsið hefur eftir mætti reynt að fara með sín verk út á landsbyggðina. Sérstaklega vakti það athygli sl. sumar hvað Þjóðleikhúsið lagði mikið af mörkum í þeim efnum og það sama verður að segja um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Íslensk þjóð getur verið stolt af sínu Þjóðleikhúsi og ekki síður stolt af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég lít svo á að þessi tillaga sé ekki síður flutt til þess að styrkja þetta starf sem fram fer innan veggja Þjóðleikhússins og hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég vil aftur þakka hv. flm. fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli.