Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:09:56 (466)


[14:09]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram í máli margra þingmanna sem hafa látið sig þessa þáltill. varða þá er hér á ferðinni athyglisvert mál sem varðar fyrst og fremst samskipti Ríkisútvarpsins, Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það er mjög brýnt að leitað sé allra leiða til þess að veita íslenskri listsköpun farveg inn í sjónvarpssendingar, í raun og veru bæði hjá Ríkisútvarpinu en ég tek undir þau orð hv. þm. Svavars Gestssonar að það er ekki síður mikilvægt að veita þessari listsköpun farveg einnig inn í aðra ljósvakamiðla. Það er svo að samkvæmt núgildandi lögum hvíla menningarlegar skyldur ekki einungis á Ríkisútvarpinu heldur einnig á öðrum þeim sem leyfi hafa til útvarps þannig að það er ekki síður ástæða til þess að huga að því með hvaða hætti væri hægt að veita listsköpun á sviði leiklistar og tónlistar inn í ljósvakamiðlana.
    Ég hygg að það sé full ástæða til að skoða þetta vel í menntmn. Ég get upplýst það hér á þessum vettvangi af því að ég veiti útvarpslaganefnd forustu sem nú er að störfum, að samkvæmt erindisbréfi hennar á hún að fjalla sérstaklega um Menningarsjóð útvarpsstöðva, hlutverk hans og framtíð, en einnig almennt um menningarhlutverk og menningarskyldur ljósvakamiðla og þar á meðal Ríkisútvarpsins.
    Ég er þeim þingmönnum sammála sem hér hafa látið í ljósi þær skoðanir að e.t.v. þurfi ekki að láta af hendi rakna til þessa verkefnis mjög mikla fjármuni til þess að það skili sér í verulegum árangri. Ég held að litlir peningar mundu geta gert verulega mikið gagn í þessum efnum.
    Ég hefði hins vegar álitið að það væri rétt af minni hálfu hér og nú að vekja athygli á því að fyrir utan þessi viðamiklu verk, sem flutt eru á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands annars vegar og Þjóðleikhússins hins vegar, þá á sér stað hér á Íslandi mjög viðamikil listsköpun af hálfu einstaklinga. Þá vil ég nefna sérstaklega tónlistarlífið en við verðum að flokka undir íslenska listsköpun það þegar íslenskir listamenn flytja t.d. erlenda tónlist. Það hlýtur að flokkast undir íslenska listsköpun þegar íslenskir flytjendur lifandi tónlistar flytja erlenda tónlist, túlka erlenda tónlist. Þessi túlkunarlist hefur verið vaxandi hér og hún á líka að geta leitað sér leiða inn í fjölmiðlana, ljósvakamiðlana, og ég er ekki síður sannfærður um að tiltölulega litlir fjármunir mundu gera mikið gagn á þessu sviði. Ég vil því almennt lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu og þann anda sem á bak við hana er. Ég hef skilið orðalag þáltill. þannig þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Jafnframt verði athugað með hverjum öðrum hætti starfsemi þessara stofnana [þ.e. Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins] og annarra hliðstæðra geti sem best náð til allra landsmanna`` --- ég hef skilið anda þessarar þáltill. þannig að þegar rætt er um ,,aðra hliðstæða aðila`` þá sé það mjög vítt hugtak og nái einnig til þessarar listsköpunar sem ég nefndi sérstaklega sem þarf kannski ekki að ná til fleiri aðila en tveggja eða þriggja, en listflutningur af því tagi á mjög vel heima í ljósvakamiðlunum.