Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:41:18 (470)


[14:41]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er að mínum dómi hreyft mjög merkilegu og athyglisverðu máli sem vekur mjög margar spurningar um íslenska stjórnkerfið. Það var á 17. öld að menn fóru að velta fyrir sér hugmyndum um hlutverk ríkisvaldsins og því hvernig ná mætti valdinu af þeim sem þá sátu með öll völd í sínum höndum, konungar og aðall, og þeir valdhafar réðu bæði yfir löggjafarvaldinu, framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu, þ.e. þessum þremur meginþáttum sem menn hafa greint ríkisvaldið niður í. Þegar þessar hugmyndir um þrískiptingu ríkisvaldsins fóru að þróast voru þær hugsaðar þannig að þessi valdsvið ættu að vera aðskilin og hafa eftirlit hvert með öðru.
    Ég hygg að í rauninni sé það hvergi nema í Bandaríkjunum sem þessari þrískiptingu er fullkomlega fylgt eftir eða þar sem ríkir verulegur og skýr aðskilnaður milli þessara valdsviða en hér á landi búum við í rauninni enn þá við þennan gamla arf frá Danakonungi og dönskum stjórnvöldum sem m.a. felur í sér þetta veitingavald sem flm. þessa frv. var að tala um, þ.e. að það séu handhafar framkvæmdarvaldsins sem veita embætti m.a. hjá dómsvaldinu. Þar af leiðandi getur maður spurt sig að því hvort hér ríkir raunverulegur aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds. Þegar ég var að hlusta á ræðu hv. flm. þá fór ég einmitt að hugleiða hvort það væru til aðrar leiðir en hann leggur til og hvort það sé ástæða til þess að ganga lengra og í rauninni að taka þetta veitingavald algjörlega af framkvæmdarvaldinu. Ef dómsvaldið á að vera algjörlega sjálfstætt og óháð þá er það spurning hvort það á ekki að vera á höndum þess að veita þessi embætti eins og embætti saksóknara. Það mætti velta fyrir sér þeirri spurningu, hvort það ætti að vera Hæstiréttur sem skipar í þessi embætti, ef maður hugsar þetta út frá því sjónarmiði að þessi aðskilnaður sé algjör.
    Ef ég man rétt eða þekki rétt til í Bandaríkjunum þá er það almenningur sem kýs þar dómara og m.a. saksóknara í fylkjum, en ég þekki bara ekki nógu til, það væri gaman að fá það upplýst hvort þar er til eitthvert embætti ríkissaksóknara eða hver hefur slíkt með höndum, ég þekki ekki nógu vel til til að átta mig á því. Það eru auðvitað ýmsar leiðir í þessu og mjög vert að velta því fyrir sér hvernig þetta kerfi virkar hér og hvort framkvæmdarvaldið er ekki of mikið með puttana í þessum málum. Þó það hafi á sínum tíma verið stigið skref til þess að taka valdið beint af ráðherranum þá er spurning hvort ekki ætti að ganga enn lengra. En samkvæmt þessu frv. þá eru menn í sjálfu sér ekki að breyta því að veitingavaldið er áfram hjá ráðherra og þar af leiðandi hægt að skipa menn sem eru viðkomandi ráðherra þóknanlegir en aðhaldið felst auðvitað í því að það er möguleiki til þess að skipta um menn á fjögurra ára fresti. En það er auðvitað ekki það sem er mergurinn málsins. Ég hef ekki gert það upp við mig hvort þessi aðferð sé rétt, ekki síst í málum eins og viðkvæmum sakamálum, þá skiptir reynslan auðvitað gífurlega miklu máli. Reynsla og þekking, að menn hafi reynslu sem dómarar og séu starfi sínu vaxnir og þar af leiðandi er það spurning, þó að við kvennalistakonur séum ákaflega hrifnar af því að skipta um fólk sem víðast og láta það ekki sitja of lengi í embættum og stöðum, í tilfelli eins og þessu hvort átta ár í mesta lagi er hin rétta viðmiðun. Ég held að maður verði að skoða viðkvæma stöðu eins og saksóknara ríkisins mjög alvarlega.
    Það voru athyglisverðar ábendingar sem komu fram í ræðunni áðan þar sem vitnað var í grein Þórðar Björnssonar, fyrrverandi saksóknara, um hvernig menn geta þróast við það að sitja lengi í sömu embættum. Þetta er náttúrlega frægt úr hæstarétti Bandaríkjanna þar sem menn eru núna að reyna að hreinsa út eða bíða eftir því að sæti íhaldssamra dómara losni þannig að hægt sé að skipa frjálslyndari menn. ( ÓÞÞ: Það er ekki að gerast á Íslandi.) Nei, en ég er að horfa á þetta í þessu samhengi . . .  ( ÓÞÞ: Það eru þeir íhaldssömu sem eru að koma inn.) Hv. frammíkallandi getur komið hér í pontu á eftir og lýst sínum sjónarmiðum í þessu máli, en hér eru tengslin þau hversu mikil hætta fylgi því að menn sitji lengi í embættum, en almennt séð þá er ég fylgjandi því að skipt sé um menn.

    En það sem er auðvitað mergurinn málsins er að siðferðið í íslensku stjórnkerfi þarf að breytast. Það þarf að breytast í þá átt að menn horfi fyrst og fremst á hæfni viðkomandi umsækjenda, reynslu, þekkingu og menntun og hætti að kíkja á flokksskírteinin. Það er það sem verður að gerast hér. Ég hef marglýst þeirri skoðun minni að ég held einmitt að þessar pólitísku stöðuveitingar sem hér hafa tíðkast um áratuga skeið hafi valdið miklum skaða bæði í íslenska stjórnkerfinu og ekki síður í fjármálakerfinu og verður mér þá hugsað til bankanna eins og dæmin sanna undanfarnar vikur.
    Hér er eins og ég nefndi í upphafi hreyft mjög athyglisverðu máli og mjög þakkarvert að menn skuli beina sjónum að skipan þessa opinbera kerfis okkar en ég bíð spennt eftir að sjá hvernig fjallað verður um þetta mál í allshn., ég á ekki sæti þar því miður, en hér er sem sagt um athyglisverða tillögu að ræða.