Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:49:11 (471)


[14:49]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er hreyft máli sem vissulega er stórt og vekur ýmsa hugrenninga og rétt að skoða málið í heild út frá þeirri meginhugsun að um þrískiptingu valdsins sé að ræða í íslensku samfélagi. Ákæruvaldið er hluti af framkvæmdarvaldinu og verður það alltaf. Dómsvaldið er ekki orðið sjálfstætt í þrískiptingunni ef við afhendum því líka ákæruvaldið. Þess vegna er það ekki að mínu viti skynsamleg leið að láta Hæstarétt þar um véla á nokkurn hátt hvernig er skipaður saksóknari, hins vegar hygg ég að það væri ekki óeðlilegt að Alþingi Íslendinga ætti að staðfesta það í atkvæðagreiðslu hvort sá sem ráðherra hefur skipað nýtur þess trausts að litið sé á hann sem fulltrúa fyrir þjóðina. Það væri ekkert athugavert við það þó að þjóðin sjálf kysi þennan mann. Það yrðu aðeins settar leikreglur um það hvaða menntun hann þyrfti að uppfylla og svo mundi þjóðin sjálf velja þennan mann í kosningum.
    Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að það þurfi að liggja fyrir að sá sem gegnir þessu embætti sé ekki meðlimur í neinum leynifélagsskap. Ég tel það reyndar grundvallaratriði. Sá sem er meðlimur í leynifélagsskap hefur unnið einhverjum aðila trúnað án þess að við vitum hver sá trúnaður er og hvaða skyldur fylgja honum. ( BBj: Hvað er leynifélagsskapur?) Nú spyr sá sem mest veit þeirra sjálfstæðismanna hér á Alþingi Íslendinga, hv. þm. Björn Bjarnason Hvað er leynifélagsskapur? Leynifélagsskapur er félagsskapur sem er lokaður á þann hátt að það getur enginn sótt um að ganga þar inn, menn geta ekki fengið fyrir fram að vita hvaða verk þar eru unnin og menn fá ekki heldur tæmandi lista yfir það hverjir eru þar félagar. Fundir eru haldnir með leynd o.s.frv. Morgunblaðið hefur t.d. ekki fulltrúa á fundum leynifélagsskapar. Ég gæti haldið áfram með þessa skilgreiningu en ég veit að þetta frammíkall var ekki hugsað á þann veg að sá sem varpaði spurningunni fram teldi sig ekki vita svarið heldur hitt að hann vildi prufukeyra það á þeim sem hér stóð hvort hann hefði myndað sér einhverjar hugmyndir um það hvað væri leynifélagsskapur.
    Ég held reyndar að það sama eigi að gilda með hæstaréttardómara. Ég held að þeir eigi ekki að vera meðlimir í leynifélagsskap. Ég held að þeir eigi ekki að hafa unnið neinum hollustueið án þess að við vitum um hvað hann fjallaði. Þetta eru mínar skoðanir á þessu atriði.
    Hér hefur því verið varpað fram að það sé skynsamlegt að koma í veg fyrir það að sá sem gegnir embætti ríkissaksóknara forpokist. Því er slegið föstu að menn geti ekki forpokast á fjórum árum eða átta og segi ég nú eins og er að ég er ekki viss um hvort sú regla er alveg örugg. Menn geta líka verið skipaðir forpokaðir til starfa. En eitt er alveg öruggt að það veikir embættið, það eru meiri líkur á því að menn verði þægir þjónar þess ráðherra sem skipaði þá eða þess flokks, ef það liggur fyrir að þeir þurfa aftur að leita á hans náðir eftir fjögur ár og leggja það undir hans vald hvort þeir verða skipaðir áfram. Það veikir þess vegna embættið. Það eykur líkurnar á því að sá sem með embættið fer hugleiði það oftar en hann ætti að gera hvort gjörð hans sé þóknanleg þeim sem situr í ráðherrastól hverju sinni. Ég er þeirrar skoðunar að að væri til skaða. Aftur á móti sýnist mér að hitt sé virkilega umhugsunarefni hvort æviráðningin sem slík sé ekki röng. Það mætti vel hugsaði sér að sá sem skipaði þetta embætti þyrfti að víkja úr því mun fyrr en algengt er, t.d. að hann yrði að víkja þegar hann væri sextugur. Og það mætti líka hugsa sér að hann væri skipaður til ákveðins tíma. Hvort tveggja tel ég að komi vel til greina, sérstaklega væri ég þó hlynntur því að það yrðu sett aldurstakmörk á þetta embætti vegna þess að það má gera ráð fyrir því að það verði meira bil á milli viðhorfa saksóknarans sem embættismanns og þjóðarinnar eftir því sem hann nær hærri aldri ef hann hefur verið samnefnari fyrir það almenningsálit sem var þegar hann var settur í embættið á miðjum aldri, þá eru miklar líkur á því að það hafi á einhvern hátt breyst eftir því sem hann nær hærri aldri.
    Ég tel að þeir sem flytja þetta hreyfi hér vissulega þarfri umræðu og það sé nauðsynlegt hjá okkur að vera opnir fyrir því hvernig að þessum málum eigi að standa. Hins vegar hallast ég að því og játa það að mér finnst það nokkuð stuttur tími, átta ár. Ég er ekki viss um að það sé æskilegt að það gerist mjög oft að saksóknari sem hefur sett mál af stað víki frá því máli í miðjum klíðum fyrir dómskerfinu og nýr maður taki við. Það getur líka leitt til þess að þá verði meiri pressa á veitingavaldið að stuðla að því að sá sem taki við verði kannski ekki sami áhugamaðurinn um að fylgja eftir máli sem umdeilt hefur verið.

    En ég vil taka undir það að þær hættur sem hv. flm., Svavar Gestsson, gat hér um í sínu máli eru vissulega til staðar og þær eru ærið umhugsunarefni, en það er örugglega erfitt að ganga svo frá þessu máli lagalega séð að það sé ekki ávallt fyrst og fremst á hverjum tíma aðalatriðið hvernig tókst til með veitinguna. Hver var settur í þetta embætti, hvernig dugði hann til þess verks sem honum var ætlað að vinna?