Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:00:24 (473)


[15:00]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Stjórnkerfi sem byggð eru á þrískiptingu ríkisvaldsins fela í sér viðleitni til þess að halda hverjum þætti ríkisvaldsins, löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi, aðgreindu frá hinum. Þær fela einnig í sér margvíslegar aðferðir sem tryggja það með gagnkvæmu aðhaldi að einn armur ríkisvaldsins misnoti ekki aðstöðu sína og skekki þannig myndina. Þegar stjórnskipun Bandaríkjanna var mótuð voru ritaðar margvíslegar greinar af höfundum þeirrar stjórnskipunar þar sem bent var á þær hættur sem gætu verið samfara því að einn armur ríkisvaldsins gæti beitt sér án þess að fá aðhald frá hinum.
    Þótt okkar stjórnskipun hafi ekki falið í sér margar aðferðir af því tagi þá eru þær þó nokkrar. Ein slík aðferð er fólgin í því að ráðherrar þurfa að mæta á Alþingi, gera þar grein fyrir máli sínu, svara fyrirspurnum og Alþingi getur flutt vantraust á ráðherra. Þar með er tryggt í okkar stjórnskipun að löggjafarvaldið geti sett framkvæmdarvaldshafa af. Íslenska stjórnskipunin byggist þess vegna ekki á þeirri kenningu að hver armur ríkisvaldsins eigi að vera sjálfstæður frá hinum. Þvert á móti eru í íslenskri stjórnskipun ýmsar aðferðir sem beinast að því að telji einn þáttur ríkisvaldsins að annar hafi misbeitt valdi sínu og sé um það víðtæk samstaða þá sé hægt að koma í veg fyrir að þeir einstaklingar sem með það vald fara gegni því áfram.
    Því miður er það þannig að hefðin í íslenska dómstóla- og réttarfarskerfinu er pólitísk ítök. Því miður er það þannig að það er ekki mjög löng hefð hér á Íslandi fyrir sjálfstæðu dómsvaldi þótt kenningin feli það í sér. Hér sátu t.d. á Alþingi ærið lengi sýslumenn og dómarar og tóku víðtækan þátt í því að setja lögin og fóru síðan heim í héruð og dæmdu eftir þeim og fóru jafnvel líka með rannsóknarvald heim í héraðið. Mig minnir einnig að það hafi tíðkast að dómarar í landsyfirrétti á sínum tíma hafi setið hér á þinginu. Það var þess vegna ekki talið neitt óeðlilegt áratugum saman eftir endurreisn Alþingis 1845 og langt fram á þessa öld að handhafar dómsvaldsins gætu einnig átt sæti á löggjafarþinginu. Ekki voru settar neinar reglur um að koma í veg fyrir slíkt en smátt og smátt skapaðist sá skilningur að það væri óeðlilegt að starfandi dómarar sætu á Alþingi. Þannig hafa sýslumenn smátt og smátt horfið úr röðum þingmanna og dómarar hafa ekki boðið sig fram til þings á síðari árum.
    Því miður er það þó þannig að pólitísk áhrif á dómsvaldið hafa haldið áfram. Við þingmenn Alþb. flytjum hér annað frv., sem hv. þm. Svavar Gestsson er 1. flm. að, sem fjallar um Hæstarétt. Ég ætla ekki að ræða það frv. hér en það er þó ljóst að flokkspólitísk sjónarmið hafa með afgerandi hætti á allra síðustu árum sett svip á val dómara í Hæstarétt. Það er hægt að sýna með rökstuddum hætti og verður gert þegar það frv. kemur til umræðu. Það er mjög óeðlilegt að slík flokkspólitísk sjónarmið setji svip á val dómara í Hæstarétt.
    Þegar við horfumst í augu við þá reynslu hvað snertir hæstaréttardómarana þá þurfum við einnig að fyrirbyggja það að flokkspólitísk sjónarmið geti sett svip á val ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari fer með veigamikið vald í okkar þjóðfélagi. Embættisfærsla hans er trygging fyrir því að hér sé réttarríki og allir séu jafnir gagnvart ákæruvaldi og lögum. Við þurfum því að byggja inn í okkar stjórnkerfi formlegar tryggingar sem koma í veg fyrir misbeitingu flokkspólitísks valds í veitingu þessa embættis. Það er það vandamál sem þetta frv. tekst á við.
    Vissulega má færa rök fyrir því eins og tveir hv. ræðumenn hafa hér gert að sé farin sú leið að ákveða tímann sem tiltekinn einstaklingur geti gegnt embætti ríkissaksóknara þá geti það haft áhrif á embættisfærslu hans. En það eru líka rök fyrir því að ef slík tímamörk eru sett þá er formleg trygging fyrir því að hafi embætti verið veitt af pólitískum hvötum í upphafi, þá býr þjóðin ekki við slíka embættaveitingu nema um takmarkað skeið og sjálfkrafa verður hún losuð undan þeirri áþján, ef nota má það orð. Ég vil spyrja þessa tvo ágætu þingmenn, sem hér töluðu, hvernig ætla þeir að tryggja að veiting embættis ríkissaksóknara á grundvelli þröngra flokkspólitískra sjónarmmiða verði ekki varanleg, kannski í 10, 15 eða 20 ár. Það væri mikið slys fyrir íslenskt réttarfar.
    Það eru til ýmsar leiðir í því. Ein er sú að Alþingi þurfi að staðfesta skipunina. Ég er sammála hv. þm. Birni Bjarnasyni um að það er ekki eðlilegt að Alþingi kjósi ríkissaksóknara með hefðbundnum hætti en það er nokkuð annað að Alþingi þurfi að staðfesta valið. Þar með veit dómsmrh. að hann getur ekki leyft sér þrönga, flokkspólitíska hagsmuni eða sjónarmið eða tillitssemi við val á manni heldur verður að standa frammi fyrir þinginu og án umræðu færi fram atkvæðagreiðsla hér í þinginu. Það er ein aðferðin.
    Önnur aðferð er að embættið sé veitt til ákveðins tíma og sé ekki endurnýjað. Þar með væri komið í veg fyrir þá hættu sem þessir tveir ágætu þingmenn nefndu áðan, hættuna að handhafi embættisins færi að taka tillit til ráðherrans eða stjórnvalda í hegðan sinni og ákvörðunum vegna þess að hann vildi geta átt kost á því að fá embættið að nýju.
    Reynslan sýnir nú hins vegar að setutími dómsmrh. er yfirleitt það skammur hér á Íslandi að afar ólíklegt er að sami maður gegni embættinu þegar kemur að því að veita það að nýju þó það geti vissulega verið þannig að sami flokkur fari með embættið. En önnur aðferðin væri sem sagt sú að binda embættið í tíma. Það eru þess vegna til nokkrar aðferðir sem fela í sér að dregið sé úr þeirri hættu að flokkspólitísk sjónarmið eða persónuleg sjónarmið, ákveðin persónuleg valdasjónarmið einstaklinga hafi áhrif á val og kannski störf ríkissaksóknara.
    Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, það er óeðlilegt að dómrar í Hæstarétti eða öðrum dómstólum eða þá ríkissaksóknari sé félagi í leynireglum af ýmsu tagi. Það eru þó dæmi þess að svo hafi verið hér á landi. Það skapar tortryggni, umræður og gerir það að verkum að tiltrú manna til þessara embætta minnkar. Við þurfum þess vegna með margvíslegum hætti að koma á þeirri skipan að menn beri fullt traust til meginmáttarstólpa réttarríkisins á Íslandi. Við höfum knúið hér í gegn mjög víðtæka breytingu á dómstólakerfinu í landinu í samræmi við nútímasjónarmið um aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds. En við þurfum líka að tryggja með breytingum, þótt við séum ekki knúnir til þess erlendis frá, að þau embætti sem fara með æðsta vald í íslenska réttarríkinu séu sjálfstæð og hljóti trúnað allra og veiting þeirra sé með þeim hætti að hún sé hafin yfir allan grun um að einhver önnur sjónarmið en hin faglegu og stjórnkerfislegu hafi ráðið vali á mönnum.
    Virðulegi forseti. Ég vildi láta þetta koma fram hér í umræðunni vegna þeirra tveggja ræðna sem hér voru fluttar áðan. Ég vona að hv. nefnd taki þetta frv. til alvarlegrar athugunar, kanni þá möguleika sem hér hafa verið nefndir. Viðleitni okkar er að reyna að skapa víðtæka samstöðu um að styrkja heilbrigði íslenska réttarríkisins og koma í veg fyrir, eða að minnsta kosti leitast við að koma í veg fyrir, pólitíska misnotkun á veitingu embætta í æðstu stofnunum íslenska réttarríkisins.