Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:13:35 (475)


[15:13]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það að setja tímatakmörk er ekki í sjálfu sér nein trygging sem kemur í veg fyrir pólitíska misnotkun. Tímamörk geta hins vegar haft áhrif á það að afleiðingar pólitískrar misnotkunar séu ekki viðvarandi nema um skamma hríð. Þannig að sú aðferð er valin að treysta veitingavaldinu fyrir fram en hafa síðan öryggisákvæði, að mistökin verði ekki varanleg ef þau hafa orðið. Það er sú hugsun sem einkennir þessa aðferð sem hér er farin.
    Ég vil einnig nefna það hér, þó það sé e.t.v. ekki í samræmi við tíðarandann, að ég er ekki endilega viss um að við eigum að setja aldurshámark á embætti af þessu tagi. Satt að segja held ég að við höfum horft of mikið á það að setja aldurstakmörk á ýmis embætti. Við lifum sem betur fer í þjóðfélagi þar sem einstaklingar halda fullu líkamlegu og andlegu þreki miklu lengur en áður. Það er nú einu sinni þannig að þeir sem safnað hafa mikilli lífsreynslu og þekkingu og eru kannski orðnir rúmlega sextugir eða jafnvel um sjötugt eru kannski betur færir til þess að gegna mikilvægum embættum á sjálfstæðan hátt og njóta til þess trausts heldur en ýmsir af þeim sem yngri eru. Ég nefndi sem dæmi val Alþýðusambands Íslands á forseta Alþýðusambandsins í fyrra. Það gekk nokkuð á þann tíðaranda að velja sífellt yngri menn til ábyrgðar og setja aldurstakmörk og knýja menn til að hætta. Ég held þó að allir, hvar í flokki sem þeir standa, séu sammála því að val þingfulltrúa á Benedikt Davíðssyni hafi verið gott og hann hafi sýnt mikla hæfni til að gegna þessu starfi.
    Ég ætla nú ekki í almennar umræður um þetta atriði hér en vildi vegna þess að þingmaðurinn gerði aldurstakmarkið að aðalaðferð sinni aðeins vekja athygli á þessu sjónarmiði.