Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:16:12 (476)


[15:16]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér virðist Benedikt Davíðsson svo mikill friðarsinni að ég efast um að hann mundi lögsækja nokkurn mann þó hann hefði það embætti að vera ríkissaksóknari, þannig að ég veit ekki hvort hann er mjög gott dæmi í þessum efnum.
    En það sem ég vildi sérstaklega undirstrika er að vissulega er það rétt hjá hv. ræðumanni, 8. þm. Reykn., að ef vanhæfur maður er skipaður og hann fer fljótt úr embætti þá er það kostur, en það sannar ekki á nokkurn hátt að það verði þá ekki annar vanhæfur skipaður strax á eftir, þannig að það leggist aðeins við vanhæfnisskeiðið. Og það er þess vegna sem ég legg það ekki að jöfnu hvort sá öryggisventill yrði að þingið yrði látið staðfesta ákvörðun ráðherrans eða hin aðferðin að ráðherrann hefði veitingavaldið óskert eftir sem áður og þyrfti ekki að leita til þingsins. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að ef menn vilja raunverulega tryggja að ráðherrann misnoti ekki sitt vald, að skipa þarfan þjón sinn í þetta embætti, þá hljóti að koma til það aðhald að Alþingi Íslendinga þurfi að staðfesta ákvörðunina. En ég vil bæta því við að ég gæti vel hugsað mér að þjóðin sjálf kysi sér saksóknara. Það er trú mín á lýðræðinu sem veldur því að ég tel að það væri hægt að búa þannig um hæfnishnútana að menn yrðu að uppfylla viss skilyrði en svo yrði þjóðin látin velja hvern af þeim hún vildi hafa sem saksóknara.