Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:18:21 (477)

[15:18]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Hv. flm. mæla hér fyrir ekki ókunnri breytingu á lögum varðandi skipan og starfsemi Hæstaréttar og þá sérstaklega hvernig valið skuli í dóminn. Sýnist mér að hér sé verið að feta inn á þá leið sem . . .  ( Forseti: Forseti vill vekja athygli á að það er 9. dagskrármálið sem er til umræðu.) Þessi mál eru bæði af sama meiði og fjalla um það að Alþingi komi nær þeirri skipan á þeim embættum sem hér hafa verið til umræðu í dag. Áður var rætt um skipan hæstaréttardómara og nú skipan svonefnds ríkissaksóknara. ( Forseti: Forseti vill aðeins vekja athygli hv. þm. á að 8. dagskrármálið verður ekki á dagskrá í dag. Það verður ekki tekið fyrir. Það er aðeins 9. dagskrármálið, hitt hefur ekki verið rætt.) Í því sambandi þá langar mig til að taka fram að hér er náttúrlega verið að stíga inn á nýstárlega braut og verið að reyna að tengja saman með ákveðnum hætti löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið og þar með að gefa í skyn að framkvæmdarvaldið hafi ekki staðið sig nægilega vel í því að skipa í embætti á undanförnum árum og að ráðherrum sé ekki treystandi til að gera það eins og lög mæla fyrir um. Ég get tekið undir það að það þurfi að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hamla gegn miðsækni

embættiskerfisins sem virðist fara mjög vaxandi og hefur verið að gera á undanförnum árum. Því tel ég það koma til skoðunar að nýjar leiðir verði athugaðar mjög gaumgæfilega til að styrkja hið sjálfstæða stofnanakerfi í landinu og auka aðhald, og þá í gegnum löggjafarþingið, til að sem best verði staðið að vali hæfustu manna til embætta eins og til saksóknarastarfa og eins til dómarastarfa, þegar það kemur hér til afgreiðslu í þinginu.