Lendingar ferjuflugvéla á Rifi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:34:07 (480)


[15:34]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta mál er nú flutt í annað sinn, ef ég man rétt, og hlaut ekki afgreiðslu í fyrra. Ég á sæti í samgn. og mun reyna að hafa áhrif á störf nefndarinnar til þess að þetta mál verði nú afgreitt. Ég vona að þeir nýju vindar sem blása um þingið í vetur af því tagi að menn ætla að starfa betur saman og ætla að leyfa málum að hafa sinn gang í nefndum, kannski með öðrum hætti en áður, eða ég hef a.m.k. skilið það þannig, geti orðið til þess að þingmannafrumvörp fái greiðari framgang en verið hefur á undanförnum árum. Mér hefur fundist að mörg þingmál þingmanna stjórnarandstöðunnar, og reyndar stjórnarflokkanna líka, sem hefðu átt að fá framgang, hafi strandað í nefndum. Mér finnst m.a. að þetta mál sé eitt af þeim sem væri eðlilegt að fengi framgang. Þetta er ótrúlega mikill fjöldi lendinga ferjuflugvéla frá öðrum stöðum á hnattkúlunni sem verða hér og ég held að það geti orðið mjög til góðs á svona litlum stað eins og Rifi ef menn gætu komið því þannig fyrir að þarna yrði áningarstaður. Þessi flugvöllur er sérstaklega vel staðsettur vegna flugs frá Ameríku og úr vestri þannig að ég vil meina að þarna geti kannski allt farið saman, hagkvæmni og um leið orðið til þess að auka starfsemi út á landsbyggðinni.