Vegur milli Þingvalla og Hvalfjarðar um Leggjabrjót

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:37:26 (482)

[15:37]
     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. á þskj. 881, um gerð vegar milli Þingvalla og Hvalfjarðar um Leggjabrjót. Flm. auk mín er Guðni Ágústsson. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að kanna möguleika á gerð varanlegs vegar á hinni gömlu þjóðleið um Leggjabrjót milli Þingvalla og Hvalfjarðar.``
    Þessa till. flutti ég ásamt Guðna Ágústssyni í fyrra en þessi þáltill. var ekki afgreidd og því flyt ég hana aftur. Og, með leyfi forseta, les ég hér úr greinargerð:
    ,,Allt frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á þessa öld var fjölfarin leið milli Þingvalla og byggðanna norðan Hvalfjarðar. Var leiðin kennd við Leggjabrjót sem er urðarkast á miðjum fjallveginum. Um Leggjabrjót lá leið manna þegar farið var til Alþingis og að Skálholti. Leiðin geymir spor liðinna kynslóða sem fóru um veginn, bæði í skóla og til biskupssetursins í Skálholti, til Alþingis og í öðrum erindum. Leiðin um Leggjabrjót tengdi saman byggðir Hvalfjarðar og Suðurlands, einkum Þingvallasveit.
    Um Leggjabrjót eru aðeins 20 km frá Botnsskála í Hvalfirði og að Þingvöllum. Hér er um stutta en afar fagra og söguríka leið að ræða. Oft hefur verið rætt um að leggja akfæran veg um Leggjabrjót og hefur áhugi í þeim efnum farið vaxandi á síðustu árum. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps hafa ályktað um málið. Og í tillögu að svæðisskipulagi sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar, sem nú er á lokastigi, er lagt til að gerð verði ,,akfær vegtenging um Leggjabrjót upp úr Botnsdal`` og að Þingvöllum.
    Vegur um Leggjabrjót hefði geysimikla og jákvæða þýðingu í sambandi við ferðamál og ferðamannaþjónustu. Með tilkomu vegar um Leggjabrjót mundi opnast nýr Þingvallahringur sem yrði vinsæll og fjölfarinn og mundi skapa ný atvinnutækifæri í ferðaþjónustu bæði í Hvalfirði og á Akranesi. Þá yrði stutt af þessum vegi að hæsta fossi landsins, Glym í Botnsá, sem er sérstakt náttúruundur. Fram hafa komið hugmyndir um framtíðarútivistar- og skíðasvæði í Botnssúlum fyrir Akranes, Borgarnes og höfuðborgarsvæðið, enda er Bláfjallasvæðið nú þegar næstum fullnýtt. Í Botnsdal og Botnssúlum er kjörið svæði til útivistar og heilsuræktar. Botnsdalur er skjólgóður dalur, þar er náttúrufegurð mikil og jarðhiti. Það er því kjörið að byggja upp aðstöðu og þjónustu í tengslum við útivistar- og skíðasvæði í Botnssúlum. Forsenda þess er bættar samgöngur og akfær vegur um Leggjabrjót. Fjárfesting í slíkum vegi mundi verða arðbær og hagkvæm, skapa nýja möguleika og ný atvinnutækifæri í ferðaþjónustu og heilsurækt og tengja saman að nýju hinar fögru byggðir Árnessýslu og syðri hluta Borgarfjarðar.``
    Virðulegi forseti. Ferðaþjónusta er það sem margir Íslendingar trúa á að sé einn stærsti vaxtarbroddur í atvinnulífi okkar. Því megum við ekki láta neins ófreistað að bæta vegakerfi landsins og samgöngur almennt, enda er það forsenda fyrir aukinni ferðaþjónustu.
    Þegar ég legg fram þessa þáltill. þá tel ég ekki að hér sé um forgangsverkefni að ræða í vegamálum á Vesturlandi, það er langt frá því. Ég tel að það sé miklu meira áríðandi að vegir í Borgarfirði fáist gerðir og það er víða um Borgarfjörð sem þarf að setja mikla fjármuni til vegabóta. Þar eru mjög fjölfarnir margir ferðamannastaðir en ekki að sama skapi góðir vegir. En ég legg þessa þáltill. fram vegna þess að ég tel mikið atriði að fá þetta á langtímavegáætlun, þessa vegagerð frá Þingvöllum að Hvalfirði, vegna þess að það er aðeins um 20 km að ræða frá Botnskála að Þingvöllum. Þessi tenging yrði mjög mikilvæg, að fá þarna þann mikla ferðamannastraum sem stöðugt fer til Þingvalla yfir á Vesturland.
    Ég vona að þessi tillaga fái jákvæða umfjöllun og ég legg til að lokinni umræðu um hana að hv. samgn. fái hana til umfjöllunar.