Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 10:37:13 (486)

[10:37]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um umhverfisgjald sem er á þskj. 42. Flm. þessarar tillögu eru allar þingkonur Kvennalistans. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi tillögur um umhverfisgjald sem hafa það að markmiði að efla umhverfisvernd og draga úr mengun. Gjaldið verði lagt á mengandi starfsemi og lækki eftir því sem mengunarvarnir skila árangri.``
    Tillaga samhljóða þessari var flutt í lok síðasta þings og var henni þá vísað til umhvn. en umhvn. tók tillöguna aldrei fyrir vegna þess hve skammt þá lifði þings og þess vegna er hún flutt hér aftur óbreytt.
    Íslendingar hafa löngum talið að Ísland væri ómengað og óspillt en því miður er það ekki alls kostar rétt. Ef við lítum okkur nær þá vitum við að það er langt frá því að allt sé í lagi hjá okkur. En við verðum samt að líta á umhverfismálin í víðara samhengi. Ef við horfum á það úti í heimi þá tengjast umhverfisvandamálin vaxandi megnun, eyðingu auðlinda, fólksfjölgun, fátækt og misskiptingu gæða jarðarinnar. Ferskvatnsbirgðir heimsins fara minnkandi, votlendi og vötn þorna upp og súrt regn og skógareyðing leiðir til eyðingar á vistkerfinu. Giskað hefur verið á að um ein milljón tegunda dýra og plantna hafi nú þegar horfið af yfirborði jarðar fyrir tilverknað manna.
    Í loftinu sem við öndum að okkur hefur magn mengandi efna, svo sem koldíoxíðs, kolmónoxíðs, köfnunarefnisoxíða, metans og klórflúorkolefnis aukist verulega. Þetta mun að margra mati leiða til hækkaðs hitastigs á jörðinni, jöklar bráðna og yfirborð sjávar hækkar með hrikalegum afleiðingum. Heil svæði gætu jafnvel horfið af yfirborði jarðar, jafnvel heilu löndin og ég tali nú ekki um mikilvæg ræktarlönd. Þetta allt saman mun að margra mati leiða til verulegra loftslagsbreytinga á jörðinni. Eins og þingmenn eflaust muna var óvanalega mikið um að óveður geisaði í Evrópu og víðar á síðasta vetri. Þetta varð til þess að mjög margar greinar birtust bæði í innlendum og erlendum blöðum um þessi mál og margir vildu tengja þessi óveður breyttu loftslagi sem væri hægt að rekja til umhverfismengunar. Þetta er auðvitað ekki sannað og erfitt að sýna beinlínis fram á þetta, en fleiri og fleiri hafa bent á þetta. Fram hefur komið að um allan heim hefur tíðni eyðileggjandi náttúruhamfara meira en tvöfaldast síðan 1980. Það eru tryggingafélög sem hafa sérstaklega kannað þetta þar sem þau bera oftast skaða af þegar um náttúruhamfarir er að ræða og þá sérstaklega stormar og óveður. Þess vegna hafa margir haft vaxandi áhyggjur af mengandi efnum í andrúmslofti ef það er reyndin að tenging sé þarna á milli. En ég verð að ítreka að það eru ekki nærri allir sammála um þetta en þó er bent á þetta í vaxandi mæli.
    Ef við lítum okkur nær, bara til Reykjavíkur, þá mun hækkað hitastig hafa veruleg áhrif. Margir hafa nú talið að það mundi hafa jákvæð áhrif á Íslandi, þ.e. hitna verulega og allt yrði miklu lífvænlegra. En það er öðru nær. Það þarf ekki mikla hækkun á yfirborði sjávar til þess að t.d. miðbær Reykjavíkur mundi eyðileggjast verulega. Ef yfirborð sjávar hækkar þó ekki sé nema um nokkra tugi sentimetra, eins og jafnvel er talað um að geti orðið á næstu öld, munu hafnarmannvirki víða um land fara mjög illa.
    Það efni sem mestan þátt á í gróðurhúsaáhrifunum er koldíoxíð í andrúmslofti þó auðvitað komi ýmis önnur efni einnig við sögu. Ef fram heldur sem horfir mun koldíoxíð í andrúmslofti tvöfaldast á næstu öld og er því eðlilega nú lögð aðaláherslan á að reyna að draga úr koldíoxíðmengun í andrúmslofti.
    Í janúar 1991 skilaði nefnd skýrslu um útstreymi koldíoxíðs á Íslandi til umhvrh. Skýrslan er gefin út í maí 1992 en nefndin lauk störfum 1991. Eins og segir í skýrslunni þá er í henni reynt að skapa grundvöll til stefnumótunar á þessu sviði hér á landi. Ég verð að viðurkenna að það að sjá þetta svart á hvítu hversu illa við stöndum að þessum málum, þ.e. hversu mikið koldíoxíð við setjum út í andrúmsloftið miðað við önnur lönd, kom mér á óvart. Útstreymi koldíoxíðs hér á landi er um 2,4 tonn á hvern íbúa. En á Norðurlöndum er útstreymið 1,9--3 tonn á íbúa. Og ef við tökum land eins og Japan sem við höfum venjulega litið á sem er mjög mengandi land og það er mikið iðnaðarríki, þá er útstreymi á hvern íbúa í Japan 2,2 tonn. Að vísu verður að hafa það í huga að þar er þéttbýli miklu meira og áhrifin meiri á mann af því að íbúar t.d. hér á landi er dreifður á miklu stærra landsvæði en það breytir ekki því að hvert mannsbarn hér á landi skilar meiri koldíoxíði út í andrúmsloftið samkvæmt þessari skýrslu heldur en t.d. Japanir.
    Í skýrslunni er einnig lagt mat á útstreymi annarra mengandi lofttegunda hér á landi og samkvæmt henni og reyndar því sem vitað var fyrir fram er fyllsta ástæða til þess að við tökum þessi mál föstum tökum hér á landi, ekkert síður en reynt er að gera annars staðar, þó að mínu mati sé allt of lítið að gert.
    Í stærstu iðnríkjum heims hefur verið samþykkt að reyna að draga úr útstreymi koldíoxíðs og hefur verið miðað við að fyrsta skrefið væri að árið 2000 yrði útstreymi koldíoxíðs á íbúa um það bil það sama og var árið 1990. Þetta er auðvitað mikilvægt fyrsta skref, en það nægir engan veginn. Í blaði OECD, Observer, frá því í janúar 1993 er grein þar sem fjallað er um þetta atriði eftir mann sem heitir Tom Jones. Þar er reynt að leggja mat á hversu mikil áhrif það hefði ef útstreymi koldíoxíðs minnkaði, ekki vera hærra árið 2000 en það var árið 1990, og er fullyrt að það hefði ekki nein veruleg áhrif þannig að það þarf að taka miklu, miklu harðara á útstreymi koldíoxíðs en þær áætlanir sem uppi hafa verið um minnkun útstreymis gera. Talað er um að það þurfi að fara niður fyrir 80% lágmark af því sem iðnríkin hafa sleppt út í andrúmsloftið á íbúa árið 1990 til þess að það geti haft einhver veruleg áhrif. Og þá er það skilyrði að það verði ekki veruleg hækkun á útstreymi koldíoxíðs hjá öðrum löndum heldur en OECD-ríkjunum og iðnríkjunum, þ.e. þeim ríkjum sem nú hafa mjög lítið útstreymi koldíoxíðs. Þrátt fyrir miklar heitstrengingar og áætlanir um að reyna að vinna gegn þessu þá hefur því miður ekki gengið nægilega vel. Það er mat flestra að eina leiðin til þess að hafa einhver veruleg áhrif sé að leggja gjald á mengandi efni, t.d. gjald á koldíoxíð. Það hefur mikið verið rætt að reyna að gera það en því miður hefur það gengið frekar erfiðlega þrátt fyrir mikla bjartsýni eftir Ríó-ráðstefnuna, umhverfisráðstefnuna í Ríó, þá hafa því miður ekki gengið eftir þær yfirlýsingar sem þar voru settar fram og þær samþykktir sem þar voru gerðar. Því miður voru þær samþykktir ekki bindandi og sýnir kannski hve nauðsynlegt er að gera bindandi samninga varðandi umhverfismál.
    Við kvennalistakonur leggjum til að það verði lagt á sérstakt umhverfisgjald og teljum að það sé raunverulega eina leiðin til þess að draga verulega úr mengun. Reyndar stendur það í stefnuskrá Kvennalistans og við höfum löngum haldið því fram hér að það væri eina leiðin t.d. að fá spilliefni inn í móttökur að leggja gjald á spilliefnið til þess að fólk þurfi ekki eins og t.d. er núna að greiða verulegar upphæðir til þess að fá þessum spilliefnum eytt. Nú er það þannig að Sorpa tekur við mengandi efnum og fólk þarf að greiða fyrir. Þetta gerir það að verkum að margir reyna því miður að koma þessum efnum fyrir annars staðar, t.d. með því að þynna þau að einhverju leyti og setja þau bara út í skolpið. Ég sé því ekki aðra leið til þess að reyna að koma í veg fyrir þessa mengun en að setja verulegt gjald við innkaup á þessum efnum. Fólk getur þá á einhvern hátt fengið til baka það gjald þegar það skilar. Víða erlendis er það þannig að þó að lagt sé gjald á þessi efni þá er ekki greiddur til baka neinn hluti af gjaldinu heldur er einungis lagt á og vonað síðan að fólk skili þessum mengandi efnum þó að það fái ekki neitt í aðra hönd. Þetta er útfærsluatriði. Ég held sjálf að það sé betra að fólk fái eitthvað örlítið til baka af þeim peningum sem það hefur lagt til en þetta er auðvitað ekki skilyrði heldur verður þetta að vera útfærsluatriði eftir því hvað við á.
    Ég hef lagt á það áherslu og flm. þessarar tillögu að það gjald sem hér er lagt á og þær hugsanlegu tekjur sem gætu orðið af þessu færu eingöngu í umhverfismál, þau séu sérstaklega merkt til þess. Þetta sé ekki þar með almenn skattheimta sem fari í ríkissjóð og síðan sé þaðan deilt út aftur heldur sé þetta beintengt þannig að þetta sé umhverfisgjald sem fari í umhverfismál og ekkert annað. Ef Íslendingar ætla sér að standa við yfirlýsingar sínar á alþjóðavettvangi og vilji standa í fremstu röð í umhverfismálum, þá verðum við að gera eitthvað alvarlegt í málunum.
    Ég tel eðlilegt að umhvrn. verði látið vinna að þessum málum, auðvitað í samvinnu við fjmrn. ( Gripið fram í: Og umhvn.) og legg til, að lokinni þessari umræðu, að málinu verði vísað til síðari umr. og umhvn.