Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 10:51:04 (487)


[10:51]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Nú hefur enn á ný verið flutt hér þingmál um svokölluð hagræn stjórntæki í umhverfismálum. Hér er um að ræða endurflutning á máli sem var flutt á sl. ári um umhverfisgjald. Þá átti ég og hv. 1. flm. nokkurn orðastað um það hvers eðlis þetta gjald væri, hvort hér væri um að ræða eitthvað sem mætti líkja við þjónustugjald eða hvort hér væri um skatt að ræða. Það var ekki ljóst af þeirri umræðu sem þá fór á milli okkar hvernig ætti að flokka þetta og það er ekki að sjá á tillögunni eða greinargerðinni að 1. flm. hafi reynt neitt að skýra þetta frekar. En þó finnst mér einhvern veginn á framsöguræðunni að hv. flm. hallist frekar að því að hér sé um almenna tekjuöflun að ræða fyrir ríkissjóð og þar með er um skatt að ræða og þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt að frv. eins og þetta komi á einhverju stigi til kasta efh.- og viðskn. þar sem hún að öllu jöfnu fjallar um skattamál hér í þinginu. Því til rökstuðnings vil ég minna á það að á síðsta þingi var flutt tillaga um umhverfisskatta og þeirri tillögu var vísað til hv. efh.- og viðskn.
    Ég ætla ekki að leggja til að tillögu hv. 1. flm. um það til hvaða nefndar málinu verður vísað, verði breytt, en ég held að hv. formaður umhvn. þurfi að taka það til athugunar mjög alvarlega að málinu verði vísað til efh.- og viðskn.
    Það verður að segjast eins og er að hin svokölluðu hagrænu stjórntæki, umhverfisgjöld og umhverfisskattar, eru mjög vandmeðfarin og auðvitað væri best að við gætum losnað við slíka skattheimtu og að það mundi eingöngu duga að setja lög og reglur og allir færu eftir þeim án þess að þurfa að hafa neinn sérstakan hag af því.
    Mig langar þó til þess að vekja athygli hv. 1. flm. á því að lög og reglugerðir um umhverfismál hafa borið þó nokkurn árangur hér á landi og þá sérstaklega hvað varðar halónefni og CFC. Á síðustu árum hefur orðið veruleg minnkun á notkun þessara efna í samræmi við alþjóðasamninga og notkun halóns, ef ég man rétt, hefur minnkað um 80% á síðustu árum og notkun CFC um 70%. Þetta er allnokkur árangur og ég efast um að skattur eða umhverfisgjald gæti bætt verulega þar úr.
    Ég verð þó að segja, þar sem hér er um endurflutta óbreytta tillögu að ræða, að mér finnst nokkuð vafasamt hvort það sé rétt að eyða miklum tíma í að fjalla um þessa tillögu á þinginu í vetur, því hún felur í sér að ríkisstjórnin undirbúi og leggi fyrir Alþingi tillögur um umhverfisgjald og gjaldtöku. En frá því að tillagan var fyrst flutt þá hefur ríkisstjórnin lagt fram og kynnt skýrslu um mótun stefnu í umhverfismálum þar sem fram kemur að ríkisstjórnin hefur á prjónunum skoðun einmitt á því að leggja á umhverfisgjöld og umhverfisskatta. Það læðist því að manni sá grunur að hér sé um eitthvert kapphlaup að ræða, hver hafi nú fyrstur átt hugmyndina og hver eigi að fá heiðurinn, þingmennirnir sem komu með þáltill. eða ríkisstjórnin sem búin er að gefa út sína stefnu í þessu máli.