Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 10:56:10 (488)


[10:56]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst ekki skipta máli hver verpti fyrstur þessu eggi. Staðreyndin er sú að hér er um þarft mál að ræða og ef menn líta yfir síðustu árin og reyna að meta það hvaðan þeir straumar hafa komið sem ýtt hafa undir bætta umhverfisvitund þá held ég að það sé óhætt að segja að einn af þeim fersku straumum sem Kvennalistinn hefur flutt inn í íslensk stjórnmál er einmitt þessi græna lína. Það

er oft svo að það er hlutverk nýrra flokka og nýrra hreyfinga að vekja athygli á nýjum málum sem aðrir flokkar taka síðan upp. Ég held að það sé óhætt að segja að í árdaga var Kvennalistinn það afl sem lagði allra stjórnmálaflokka hvað mest vægi á umhverfismál í sinni stefnu.
    Hins vegar er það svo að þessi viðleitni sem Kvennalistinn hratt af stað hefur haft áhrif á alla flokka, á minn flokk og ég held alla íslensku flokkaflóruna, (Gripið fram í.) raunar báða flokkana sem ég hef verið í. Reyndar hef ég, eins og fram hefur komið, nokkurn stuðning jafnvel í stjórnmálaflokkum sem ég hef aldrei verið í og það bendir kannski til þess að Kvennalistinn, einnig þar, hafi vakið síðbúna vitundarvakningu í þessum málum. Guð láti gott á vita.
    Varðandi þessa þáltill., sem flutt er óbreytt, þá er hún í sjálfu sér ágæt. Þar er talað um að setja á umhverfisgjald sem hafi það markmið að efla umhverfisvernd og draga úr mengun. Í greinargerð með tillögunni vantar hins vegar, að mér finnst, svona frekari útfærslu á því hvað er átt við. Hvað eru umhverfisgjöld? Ég hjó eftir því í máli hv. flm. að hún virtist breiða væng sinn í senn yfir það sem kallað hefur verið umhverfisgjald og líka skilagjald. Ég held í sjálfu sér að það væri þörf á nokkurri umræðu til þess að skerpa þetta. Ég hef sjálfur tilhneigingu til þess að segja að umhverfisgjald og skilagjöld séu eitt og hið sama. Um þetta er raunar deilt. Ég tek hins vegar eftir því að greinargerðin gengur fyrst og fremst út á það að dregið sé úr losun mengandi lofttegunda. En það er auðvitað margvísleg önnur starfsemi sem hefur mengun í för með sér. Ég held t.d. að það sem er allra brýnast og þarfast í dag sé ekki að setja á svona gjald --- ég kem að því síðar af hverju --- heldur frekar að setja skilagjöld á t.d. bíla og spilliefni.
    Það er hárrétt að það hefur verið mikil umræða um hækkandi hitastig og það hefur verið kennt gróðurhúsalofttegundum. Fram á allra síðustu ár hafa menn deilt um það hvort þessi umræða eigi rétt á sér, hvort það sé hægt að benda á það með óyggjandi rökum að hitastigið hafi raunverulega hækkað. Menn hafa að vísu mælingar sem ná yfir áratugi. Flestir þessir mælingapunktar eru í grennd við þéttbýli sem eru eins konar hitagildrur þar sem hitastig er að jafnaði 4--5 gráðum hærra heldur en annars staðar. Þetta hefur verið notað sem rök gegn þessari kenningu.
    Á ráðstefnu sem hér var haldin fyrir tveimur vikum komu hins vegar fram verulega sannfærandi rök fyrir því að hitastig hafi hækkað. Það voru birtar hitamælingar á borholum, olíuholum, sem höfðu verið í notkun bæði í Alaska og Síberíu, sumar yfir 100 ár, og þar kemur í ljós að hitastigið, þar sem mælt er daglega í þessum holum, hefur hækkað yfir síðustu 100 árin. Á hinn bóginn velta menn því fyrir sér hvort það geri eitthvað til þó að hitastigið hækki. Á allra síðustu árum hafa komið fram rannsóknir sem gjörbylta hugmyndum manna um veðurfarsþróun. Rannsóknir sem hafa verið gerðar t.d. á borkjörnum í sjávarseti, á suðurskautslandinu og tveimur borkjörnum á Grænlandsjökli gjörbylta öllum hugmyndum manna um getu jarðarkringlunnar til þess að taka við miklum og óvæntum hitasveiflum. Þar kemur t.d. fram að hitabreyting sem skilgreina má sem upphaf eða lok ísaldar getur gerst á 10--12 árum. Engan mann óraði fyrir þessu áður. En náttúran á að njóta vafans og þó að þessar upplýsingar séu það nýjar þá er ekki hægt að túlka það með þeim hætti sem sumir eru byrjaðir að gera erlendis og segja sem svo að það sé allt í lagi þó að hitastigið hækki talsvert vegna þess að náttúran geti jafnað þetta sjálf út. Það kemur nefnilega líka fram í þessum rannsóknum á fornveðurfari að við erum núna stödd á mjög óvanalega löngu hlýskeiði. Þeir vísindamenn sem hafa um þetta vélað, verið í þessum fornhitamælingum, þeir segja: Það má ekkert gera sem getur sett þetta langa hlýskeið úr jafnvægi. Um leið og það er sett úr jafnvægi þá gætu þessir hlutir gerst sem hv. þm. ræddi um áðan. Það er staðreynd að með hækkandi hitastigi voru menn búnir að spá því að óveður mundu aukast. Ég var t.d. fyrir tilviljun staddur á ráðstefnu, vegna þess að ég vann einu sinni hjá tryggingafélagi, árið 1986, þar sem settir voru fram spádómar sem hafa gengið eftir. Hamfaraveðrum t.d. á norðurhveli jarðar hefur stórfjölgað á síðustu árum. Þetta er mikið vandamál í tryggingaheiminum, enda kom ég mér þaðan.
    Hv. þm. bendir á það að ef fram heldur sem horfir þá muni losun CO 2 tvöfaldast á næstu öld og hún segir líka að Íslendingar verði að gera eitthvað alvarlegt í málunum til að standa skil á skuldbindingum sínum.
    Ég leyfi mér að efast um þetta. Eins og kom fram hjá hv. þm. Árna M. Mathiesen þá hefur það gerst frá árinu 1976 að losun klórflúorefna og halónefna hefur minnkað alveg gríðarlega hér á landi, um 70--80%, og kæliiðnaðurinn hefur raunverulega verið langt á undan stjórnmálaflokkum, jafnvel langt á undan Kvennalistanum, hvað varðar úrbætur í þessum efnum. Fleiri fyrirtæki hafa tekið þetta mál upp á sína arma. Ég hef stundum verið gagnrýnandi Eimskipafélagsins en Eimskipafélagið hefur t.d. beitt sér fyrir nýjungum sem gera það að verkum að fyrirtækið er eiginlega fremst í sinni röð í Evrópu.
    Varðandi koldíoxíð þá er það alveg rétt að Íslendingar losa verulegt magn af koldíoxíð út í andrúmsloftið. Þeir hafa gengist undir vissar alþjóðlegar skuldbindingar, sem hér voru raktar áðan. Þeir eru aðilar að samningnum um loftslagsbreytingar sem tekur gildi fyrr en menn ætluðu, þ.e. í mars á næsta ári vegna þess að þá munu um 50 ríki vera búin að fullgilda hann. En það er eigi að síður svo að hér hefur verið nefnd að störfum að kanna þessi mál og það kemur í ljós, þó að þær niðurstöður séu ekki birtar, að losun koldíoxíðs á Íslandi hefur náð jafnvægi. Hún hefur ekki aukist um árabil. Nú er það auðvitað svo að það má gera ráð fyrir því að vegna fjölgunar landsmanna, fjölgunar fyrirtækja, þá sé ekki víst að þessi stöðnun í losun á koldíoxíði muni haldast. Þess vegna eru menn að gera framkvæmdaáætlanir til þess að tryggja minni losun, einmitt í þessari nefnd sem þingmaðurinn gat um áðan. Þannig að allt það sem

hv. þm. lagði til áðan er nú í vinnslu. Þeim gjöldum sem hún drap hér lítillega á er verið að vinna að í umhvrn. samkvæmt stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég er ekki að segja að með þessu sé þessi tillaga óþörf. Það er ágætt að vekja athygli á málum eins og þessum. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég vildi einungis segja það og leggja á það áherslu að allt það sem hv. þm. drap hér á áðan og raunar miklu fleiri atriði eru í vinnslu í umhvrn. og það hefur allt saman komið fram opinberlega á síðustu mánuðum. Flest af því er líka með einum eða öðrum hætti á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar.