Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:04:52 (489)


[11:04]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins með örfáum orðum lýsa stuðningi við þá hugsun sem fram kemur í þessari þáltill. Ég var að vísu lengi efasemdarmaður um mengunargjald og hlustaði á menn sem sögðu: Mega þeir þá menga sem telja skárra að greiða gjaldið en leggja í dýrar framkvæmdir? Og það er vitanlega hugsun út af fyrir sig. En ég verð að viðurkenna að á síðari árum hef ég meira og meira horfið að því að líklega kunni þetta að vera skásta leiðin.
    En ég vil alveg sérstaklega taka undir það sem hv. flm. sagði áðan um þá hættu sem að okkur steðjar og ég held að við séum löngu komnir fram hjá þeim punkti að við getum í raun lýst efasemdum. Það er að vísu rétt sem hæstv. umhvrh. sagði að það eru enn þá miklar efasemdarraddir og sumar þessara radda eru áhrifamiklar eins og t.d. þær efasemdir sem réðu mjög stefnu Bandaríkjanna í þessum málum, bæði á umhverfisráðstefnunni í Ríó og fjöldamörgum öðrum fundum sem um þetta mál hafa verið haldnir.
    Ég held að hvað sem menn vilja segja þá er það staðreynd að maðurinn, með sínum framkvæmdum og í sínu lífi, er að gjörbreyta öllu lífkerfi jarðar. Ég held að það verði ekkert um það deilt að þessar breytingar eru ekki til batnaðar. Það er afar fróðlegt að lesa bók eins og eftir varaforseta Bandaríkjanna, Earth in a Balance eða Jörð í jafnvægi. Þar dregur varaforsetinn fram gífurlega mikið safn upplýsinga um það sem er að gerast og leiðir að því, að mér sýnist, afar sterk rök að þessar breytingar vaxi mjög hratt og það geti vel farið svo að mannkynið standi fyrr en varir á þeim punkti sem er ekki endurkomu auðið frá, eða ,,point of no return``, eins og sagt er á enskunni, og þetta kunni jafnvel að vera skemmra fram undan heldur en margir hafa talið.
    Ég tel að við Íslendingar verðum að leggja okkar af mörkum til þess að snúa þessari þróun við. Mér finnst satt að segja ekki þolanlegt að hér sé útstreymi koltvísýrings meiri á hvern mann heldur en almennt gerist og tel að við eigum að taka það mjög föstum tökum.
    En tillagan fjallar um meira heldur en koltvísýring. Hún fjallar um mengunargjald almennt og vitanlega er það staðreyndin, og það er rétt sem hæstv. umhvrh. sagði að vísu, að hér hefur dregið meira úr notkun á ósoneyðandi efnum heldur en víða annars staðar. En engu að síður er það þó að við sleppum töluverðu af ósoneyðandi efnum út í andrúmsloftið eru mörg þessara efna að hafa áhrif í yfir 100 ár þannig að það er svo langt, langt frá því að þau efni sem horfið hafa út í andrúmsloftið hafi lokið sínum líftíma. Því fer víðsfjarri. Ég hugsa að út af fyrir sig sé ósoneyðingin fullt eins mikið áhyggjuefni í dag og upphitun andrúmsloftsins vegna þessa gífurlega langa líftíma sem þessi efni hafa. Þar held ég að þurfi að taka á málunum af miklu meiri snerpu jafnvel heldur en í sambandi við koltvísýringinn.
    Það er rétt að það hafa komið fram ýmsar kenningar um það og reyndar mælingar sem sýna að hækkun á hitastigi hafi ekki orðið eins mikil og margir spáðu hér áður fyrr, fyrir örfáum árum. En það hefur líka verið sýnt fram á að eyðing ósonlagsins verkar þar að vissu leyti í gegn, gegnupphitun andrúmsloftsins, en er hins vegar afar skaðleg að öðru leyti og jafnvel ekki síður skaðleg, þó á annan máta sé, heldur en upphitun jarðar.
    Ég held að flestir sem um þetta hafa fjallað upp á síðkastið hafi komist að þeirri niðurstöðu, með öðrum orðum, að þarna sé um afar flókið samspil að ræða, mjög flókið, og miklu flóknara heldur en menn höfðu áður almennt gert sér grein fyrir. Ég held þess vegna að það þurfi að ráðast gegn öllum þessum þáttum. Ég er ekki í nokkrum vafa að bæði hér og yfirleitt í heiminum þá hefur þetta daglega efnahagskapphlaup mjög skyggt á þá miklu nauðsyn að líta til lengri framtíðar.
    Ég var að fá í hendurnar afar fróðlega skýrslu sem er skrifuð fyrir mikið þing trúarleiðtoga sem haldið var í Chicago á sl. sumri. Þar mættu held ég 8.000 manns. Skýrslan er út af fyrir sig hrollvekja en þar er dregið saman á afar athyglisverðan máta ýmislegt af því sem blasir við að þessu leyti.
    Þó að mannfjöldaaukning sé ekki hér á dagskrá þá er þetta tengt þeim stóru vandamálum sem þjóðir heimsins þurfa að horfast í augu við. Ég sat nýlega fund þar sem fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar FAO, Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, töluðu. Þar sagði fulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sem hefur með mannfjöldaaukningu að gera, að það verði ekki með nokkrum ráðum hægt að stöðva það að mannkynið tvöfaldaðist á næstu 30 árum og yrði orðinn um 11 milljarðar eftir 30 ár. Fulltrúi FAO sagði að hvernig sem þeir reiknuðu og hvernig sem þeir skoðuðu þá gætu þeir ekki með nokkrum móti gert sér vonir um að það væri hægt að fæða þennan mannfjölda, ekki með nokkrum móti, það væri ekki hægt. Þannig að þar er náttúrlega þegar stórkostlegt vandamál og þó það sé af öðrum toga spunnið þá tengist það vitanlega þessu að vaxandi mannfjöldi mengar meira, langtum meira. Það verður meira notað af áburði til að knýja fram meiri vöxt og svo framvegis sem allt veldur mengun sem ekki er tími hér til að fara nánar í.
    Sem sagt ég fyrir mitt leyti hallast nú meira og meira að því að það kunni að verða að taka upp svona mengunargjald. Það verður vandásett og verður að gæta þess vandlega hvernig það verður ákveðið. En fyrst og fremst stóð ég upp til að styðja almennt þá hugmynd að við Íslendingar lítum lengra fram á veg og stöndum okkur eins vel og frekast er kostur í því að verða þarna leiðandi og reyndar þurfum við að taka í vaxandi mæli þátt í alþjóðlegu samstarfi sem um þessi mál fjalla og beita áhrifum okkar þar til góðs.