Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:19:58 (494)


[11:19]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það væri nú ekki verra ef hæstv. forseti hefði tök á að gera hv. 3. þm. Reykn. viðvart svo hann gæti verið hér í kallfæri undir minni ræðu, ég þarf aðeins að víkja að því sem fram kom í hans máli.
    Ég vil almennt lýsa yfir stuðningi við tillöguna sem slíka að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa og leggja fyrir Alþingi tillögur um umhverfisgjald með því markmiði sem lýst er í tillögunni. Það er hins vegar ekki þar með sagt að ég sé að lýsa yfir stuðningi við það að taka upp umhverfisgjald yfir höfuð. Ég er ekki fyllilega sannfærður um að það sé leiðin sem menn eiga að fara að nota markaðshyggjuna í þessu skyni. Ef við horfum á það hvernig praxísinn verður á þessu máli þá yrði hann þannig að menn mundu borga þetta gjald sem yrði mishátt eftir því hve starfsemi þeirra væri slæm gagnvart umhverfinu eftir einhverjum mælikvörðum. Það gjald ætti að stuðla að því að menn réðust í fjárfestingu til að minnka mengunina og lækka þar með gjaldið. Þá þyrftu viðkomandi fyrirtæki á sama tíma og þau eru að borga gjaldið líka að leggja út í fjárfestingu til að minnka það, hvort tveggja í senn. Ég er því ekki viss um að þetta sé endilega betri leið því eins og kom fram að því mér heyrðist í máli hv. 7. þm. Reykn. þá gætu fyrirtæki einfaldlega valið þá leið bara að borga gjaldið og upp kæmi það hugarfar að það væri í raun og veru kannski ódýrara heldur en hitt og menn fjarlægðust það markmið, sem þeir ætluðu sér með þessari tillögu, að innleiða það hugarfar að menn eigi ekki að menga. Það er spurning hvort það væri ekki betra sem almenn regla að mengun væri bönnuð eftir einhverjum reglum og slíku að viðlögðum refsingum. Þetta eru þær tvær leiðir sem menn sjá í fljótheitum. Ég er engan veginn sannfærður um að umhverfisgjaldið sé betri leið en mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að láta þá það mál fá skoðun og fá fram tillögur um það til að sjá hvernig þær líta út þannig að maður geti áttað sig betur á því því kannski er maður að meta hlutina út frá of óvissum forsendum.
    En ég vil benda mönnum á það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni að þetta mundi samkvæmt henni fyrst og fremst koma niður á fiskiskipaflotanum. Gjaldið mundi fyrst og fremst vera lagt á hann ef meginþunginn á að vera að draga úr útstreymi koldíoxíðs. Þá legst það fyrst og fremst á fiskiskipaflotann og er nú ekki ærin skattlagningin á fiskiskipaflotann þessi síðustu ár þó menn bæti ekki meiru við án þess að hugsa fyrir heildarrekstrarafkomu.
    Það sem vakti athygli mína var sú yfirlýsing hv. 3. þm. Reykn. að það væri líklega rétt að þessi tillaga færi til efh.- og viðskn. þar sem um skatt væri að ræða. Ekki endilega fyrir það að ég sé honum ósammála, það má vera að hann hafi rétt fyrir sér, það eru nokkur rök í hans máli, heldur fyrir það hitt að þau rök sem hann notar fyrir sínu máli eru nákvæmlega þau sömu og gilda um svonefnd heilsukort. Þannig að með þessu hefur þingmaður Sjálfstfl. í raun og veru lýst því yfir að heilsukortin séu skattur. Það er mjög merkileg yfirlýsing að hún skuli koma hér fram einmitt sama dag og landsfundur Sjálfstfl. er að hefjast. ( ÓÞÞ: Ekki seinna vænna.) Svo landsfundarfulltrúum megi vera það ljóst að ríkisstjórnin er að taka upp nýjan skatt því það er með heilsukortin nákvæmlega það sama og með umhverfisgjaldið eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta, að ,,fé sem inn kemur ætti hins vegar einungis að nota í þágu umhverfismála en ekki gera það að almennum tekjustofni fyrir ríkissjóð eða sveitarfélög``. Þetta er nákvæmlega það sama og með heilsukortin. Það á einungis að notast til heilbrigðismála en ekki að vera almennur tekjustofn. Það á sem sagt að koma útgjaldamegin á fjárlög, kredit þar á móti útgjöldum, lækka útgjöldin nákvæmlega eins og hugmyndin er með þessu umhverfisgjaldi. Þannig að það liggur alveg ljóst fyrir í mínum huga og vonandi annarra sem hafa fylgst með þessari umræðu að aðaltalsmaður Sjálfstfl. í umhverfismálum hefur hér viðurkennt að fyrirhuguð upptaka heilsukorta er nýr skattur.