Mat á umhverfisáhrifum nýrrar lagasetningar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:00:38 (501)

[12:00]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um mat á umhverfisáhrifum nýrrar lagasetningar sem er á þskj. 43. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Jón Helgason.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta framvegis fara fram á undirbúningsstigi mat á hugsanlegum umhverfisáhrifum nýrrar löggjafar. Slíkt mat verði prentað sem fylgiskjal með stjórnarfrumvörpum með sama hætti og verið hefur með kostnaðarmat.``
    Þessi tillaga var flutt í lok síðasta löggjafarþings. Henni var þá vísað til umhverfisnefndar en hlaut ekki afgreiðslu og var raunar ekkert fjallað um tillöguna þar sem ekki vannst tími til þess í umhverfisnefnd og er því þessi tilllaga flutt óbreytt.
    Eins og hv. þm. er kunnugt þá er það nú orðin venja að kostnaðarmat fylgir stjfrv., þ.e. fjárlagaskrifstofu fjmrn. er falið að leggja mat á hvaða kostnaðaráhrif ákveðin frumvörp hafa í för með sér fyrir ríkissjóð og er það álit prentað sem fylgiskjal. Það er einni gert ráð fyrir því í 30. gr. þingskapa að ef nefnd mælir með samþykkt frv. eða þáltill. þá skuli hún láta prenta í áliti sínu áætlun um kostnað sem samþykkt tillögunnar gæti haft í för með sér.
    Að mati flm. er mjög mikilvægt að þingmenn geri sér ekki aðeins grein fyrir hvaða kostnað frv. getur haft í för með sér heldur ekki síður hvaða áhrif samþykkt viðkomandi tillaga eða frv. getur haft í för með sér fyrir umhverfið. Ég get tekið sem dæmi veruleg áhrif á umhverfið sem ákveðin lagasetning hafði í för með sér. Það eru þó nokkuð mörg ár síðan að ákveðið var að lækka toll á bifreiðum í tengslum við kjarasamninga. Þetta var gert til að laga vísitöluna. Þetta hafði auðvitað ákveðin kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð en þetta hafði veruleg önnur áhrif, m.a. fyrir umhverfið. Að vísu hafði það einnig mjög mikil áhrif fyrir heilbrigðiskerfið þar sem talið er að bara þessi eina aðgerð hafi orsakað verulega aukningu umferðarslysa en það er nú kannski annar handleggur og erfiðara að meta hvað sú eina aðgerð hafði í för með sér. En slíkar samþykktir geta haft veruleg önnur áhrif en beint er hægt að sjá um leið og viðkomandi tillaga er lögð fram eða samþykkt sem breyting á lögum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að það verði reynt að leggja mat á það hvaða áhrif lagasetning hefur á umhverfið. Þess vegna er þessi tillaga flutt.
    Ég held að það þurfi ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu, virðulegur forseti, þar sem svo augljóst er hvað flm. hafa í huga með henni. Legg ég því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umræðu og hv. umhvn.