Dýravernd

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:22:01 (503)


[12:22]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að flytja hér frv. til laga um dýravernd, en bæði er að sumt í þessu frv. ( Umhvrh.: Hefur þingmaðurinn lesið frv.?) er á þann veg að það hlýtur að kalla á spurningar og það fyrsta sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um er: Hvaða rými er eðlilegt fyrir hænsni? Hvert er eðlilegt rými fyrir hænu? Sé það metið eins og hér stendur, þá liggur það ljóst fyrir að þetta er ákvörðun um að banna búreldi. Því það er vitað að hver einasta hæna sem býr við svo þröngan kost að vera ásamt 5 eða 6 geymd í lokuðu hólfi, heldur ekki andlegu heilbrigði sínu. Hæstv. ráðherra getur gengið úr skugga um það með því að taka í sínar vörslur slíkar hænur og sleppa þeim við hliðina á hænum sem hafa eðlilegt rými. --- Ég sé að hæstv. ráðherra er þegar farinn að lesa frv. og er það vel, því ekki er seinna vænna. ( Umhvrh.: Veit ekki virðulegur þingmaður hvar ráðherrann er alinn upp?) ( Gripið fram í: Hann er alinn upp á hænsnabúi.) Það eru nú nákvæmlega engar reglur um það hvort heimilt sé að ala menn upp með hænsnunum eða ekki í þessu frv. og vík ég mér alveg undan að taka það sérstaklega fyrir.
    En ég sé hér aftur á móti aðra hluti sem vekja mjög umhugsun mína. Ég er hlynntur því að það sé farið vel með dýr og ég er hlynntur ýmsum ákvæðum þessa frv., m.a. skyldunni að stöðva bíl og athuga hvort dýr hefur slasast það mikið að það verði að aflífa það og láta vita og eins gagnvart veiðum að því sé fylgt eftir að menn reyni að aflífa dýr, þau sem hafa ekki fallið við fyrsta skot, en láti þau ekki afskiptalaus. En það sem mér finnst vera að þegar ég skoða þetta frv. er fyrst og fremst sá stóri þáttur sem snýr að hæstv. ráðherranum sjálfum.
    Íslendingar fluttu inn bústofn til Íslands. Þeir fluttu inn kýr og kindur, þeir fluttu inn hross. Stjórnvöld fluttu inn hreindýr. Stjórnvöld fengu þessi hreindýr hjá hirðingjum sem höfðu fylgt þeim eftir að vetrarlagi, tryggt þeim haga, séð um að þau lentu ekki í þannig landþrengslum að þau syltu í hel og önnuðust þessi hreindýr. Þeir höfðu engin hús yfir þau en þeir fylgdu þeim eftir. Með því að flytja þessi hreindýr til Íslands var ætlunin að bæta hér við búskap landsmanna og ég tel ástæðulaust að atyrða á nokkurn hátt þá sem það gerðu, ég hygg að hugsunin hafi verið góð. En þeir voru að flytja hreindýr frá svæðum þar sem var meginlandsloftslag yfir til svæðis þar sem að mestu leyti er úthafsloftslag, með smáundantekningum. Munurinn á vetrarríki þessara svæða er sá að þar sem meginlandsloftslag er fellur snjórinn til jarðar, getur að vísu orðið mikill en hjarnmyndun er miklu minni og dýrin eiga þess vegna möguleika á að krafsa sig í gegnum þennan snjó. Þar sem úthafsloftslag er aftur á móti, verða oft blotar að vetrarlagi, hjarn myndast, og svell og hjarn meina dýrum að ná í þann gróður sem er undir snjónum. Þess vegna lít ég svo á að það sé tómt mál að tala um það að hægt sé að telja það eðlilega umsýslu með hreindýrunum, eins og er í dag, að hirða um það eitt að fjöldi þeirra fari ekki yfir visst hámark, sem er náttúruvernd gagnvart landinu, leyfa veiðimönnum að skjóta og fella fallegustu dýrin, því í reynd er þetta ákvarðanataka um það að fella úr hor öll þau dýr sem eru lasburða og eldri.
    Ég hygg að hæstv. umhvrh., sem er nýkominn í þennan stól, verði á engan hátt sakaður um þá fortíð sem við höfum mátt búa við í þessum efnum. Hins vegar hefur hann tekið að sér mikla ábyrgð með þeirri stöðu sem hann gegnir og ég vænti alls góðs af. Ég tel aftur á móti að þetta mál sé svo stórt að það sé vonlaust að láta það liggja utan garðs þegar við ræðum almennt um dýravernd á Íslandi.
    Önnur dýr sem hér eru, eru dýr þessarar náttúru, þessa svæðis og hafa þess vegna miklu betri möguleika til að bjarga sér í íslensku umhverfi heldur en hreindýrin. Því geri ég þetta hér að umræðuefni að mér er ljóst að þeir sem sömdu þetta frv. hafa vissulega samið það út frá þeim jákvæðu forsendum að dýravernd er sjálfsögð og hluti af menningu hvers lands að tryggja eðlilega dýravernd. Ég tel aftur á móti að sú nefnd sem fær þetta til meðferðar hljóti að verða að taka á því máli hvernig eigi að bregðast við þegar vitað er að hreindýrin munu falla í stórum stíl ef ekkert er gert.
    Hér sat sem varamaður á seinasta þingi ágætur Austfirðingur sem á eða átti fjallajörð þar sem íslenska ríkið horfelldi í gegnum tíðina mikið af hreindýrum á. Honum var þetta ekkert gamanmál frekar en mér, þegar ég ræði þetta, því ég tel að á þessu máli verði að taka. Því beini ég því til hæstv. umhvrh. að hann láti þetta mál ekki liggja utan garðs heldur fari í það að kanna hvað sé hægt að gera og hvað það sé sem hirðingjarnir eða Lapparnir, sem nytja þessi hreindýr, telja að sé lágmark gagnvart eðlilegri umhirðu þessara dýra.
    Hér eru ýmis ákvæði gagnvart þeim dýrum sem menn hýsa ekki að staðaldri heldur hafa úti við. Ég er þeirrar skoðunar að það geti verið eðlilegt undir mörgum kringumstæðum að fara fram á það að þar sé haft skjól fyrir stóð sem haft er úti. Ég hygg að sums staðar veiti landið nægilegt skjól og því sé ekki hægt með réttu að kveða á um sterka þörf í þeim efnum, en fóðrun er skilyrðislaus nauðsyn. Fóðrun handa útigangsstóði er skilyrðislaus nauðsyn, að mínu viti, allt annað gengur ekki upp og ég hygg að það hljóti að vera aðalatriðið.
    Hér eru ýmsar hugmyndir um það hverjir og hvernig eigi að standa að því að svipta menn skepnum sem þeir hafa undir höndum, ef umhirða stenst ekki. Í þeim efnum vil ég segja það eitt að þar finnst mér að mjög ríkt verði að ganga eftir að fylgt sé eðlilegum stjórnsýsluaðgerðum. Við höfum verið að aðgreina dómsvald og framkvæmdarvald og það verður að gera þær kröfur til þess texta sem hér er að hann standist það að framkvæmdarvaldið sé ekki í reynd bæði dómsvald og framkvæmdarvald. Þetta veit ég að hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir að er mikilvægt og að stjórnsýsluákvæði verði könnuð mjög gaumgæfilega í því sambandi þannig að við séum ekki að feta okkur frá því sem við vorum að gera, að aðgreina þarna á milli.
    Ég tel þetta frv. miklu betra en það sem áður hafði legið fyrir þinginu og dagaði uppi, eins og menn vita. En ég spyr aftur á móti varðandi það frv. sem hér er lagt fram, að ég hygg að það þurfi að ganga mjög gaumgæfilega frá orðalagi texta þess þannig að menn viti nákvæmlega hvað þeir eru að samþykkja, eins og ég gat um þegar ég minntist á þá einu dýrategund sem ég tel að búi við þrengri kost en hægt sé að tala um að eðlilegur geti talist og ræddi þar um hænsnin.
    Nú er það svo að það er mikil umræða um það sums staðar hvort það geti verið eðlilegt að geyma þau í búrum eins og gert er. Ég vænti þess að þeir sem um þetta fjalli geri sér grein fyrir því að texti frv. þýðir, að mínu viti, að það væri óheimilt að hafa hænsni í búrum sem varpfugla, vegna þess að þau halda ekki andlegu heilbrigði við þær kringumstæður, eins og ég minntist á hér áðan.