Dýravernd

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:34:35 (504)


[12:34]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hæstv. umhvrh. þegar hann í lok ræðu sinnar lagði áherslu á að þetta frv. verði samþykkt til þess að bæta þá óviðunandi löggjöf sem við búum við í dag hvað varðar dýravernd. Það lýsir kannski forgangsröð okkar hérna á hv. Alþingi að þetta frv. hefur verið lagt fram sl. tvö þing og ekki hlotið afgreiðslu. En við höfum hins vegar eytt ómældum tíma í ýmiss konar dægurmál sem upp hafa komið og ekki reynst síðan umræðunnar verð.

    Þar sem ég átti sæti í þeirri nefnd sem þetta frv. samdi, þá vil ég þakka bóndanum í Efra-Nesi, hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, hlý orð í okkar garð. Það var að sönnu ekki auðvelt verk að semja frv. sem þetta því það eru mjög mörg álitamál sem upp koma þegar fjallað er um dýravernd og erfitt að skilgreina alla hluti út í hörgul svo enginn geti hártogað þar orð og hugmyndir sem fram koma. Ég hef sagt það áður hér í þessum ræðustóli að það þurfi ekki nema svona meðalhúmorista til þess að hártoga aðra hverja grein og búa til úr því brandara. Og ég er þakklátur hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni sem, eins og þingheimur veit, er meira en meðalhúmoristi, eins og hann sýndi hér fyrr í morgun, fyrir það að falla ekki í þá freistni að gera þetta frv. að gamanmáli nema þegar hann gat aðeins gert grín að uppeldisstöðvum umhvrh.
    Ég vil efnislega drepa á eitt atriði sem hann nefndi þegar hann fjallaði um umhirðu dýra sem ekki nytu húsaskjóls á vetrum. Ég er auðvitað sammála honum um það að þau þurfa bæði fóður og vatn í nægilegum mæli á þessu tímabili, en ég er einnig þeirrar skoðunar að þau þurfi á skjóli að halda fyrir verstu vetrarvindunum. Það hefur reynsla mín sem dýralæknir kennt mér. Það þarf ekki endilega að vera hús, en það þarf að vera skjól fyrir verstu norðanáttinni og reyndar oft á tíðum líka fyrir votri sunnanáttinni.
    En hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson villtist aðeins af braut þegar hann fór að fjalla um hreindýrin í samhengi þessa frv. því samhliða þessu frv. hefur á síðustu tveimur þingum verið lagt fram annað frv., um veiðar og verndun villtra dýra og fugla, og þar er fjallað um hreindýrin, en það var ekki verkefni þeirrar nefndar sem þetta frv. samdi. Ég vona að sú umræða sem farið hefur fram um þetta frv. á síðustu tveimur þingum, bæði í þingsalnum og í nefnd og eins sú umræða sem farið hefur fram úti í þjóðfélaginu og hefur síðan leitt til breytinga sem gerðar hafa verið á þessu frv., leiði til þess að við getum verið tiltölulega fljót að vinna þetta mál í nefndinni og jafnvel afgreitt það fyrir jólin til þess að við getum fagnað nýju ári með nýjum lögum um dýravernd.