Dýravernd

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:45:50 (508)


[12:45]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Fyrst vil ég víkja að því sem hér var fullyrt varðandi minkinn að þar sem hann hefði verið miklu skemur í náttúrunni þá bæri að líta svo á að frekar ætti að líta á hann sem tamið dýr heldur en hreindýrið. Nú er það svo að það er ekki mjög löng hefð fyrir því að ala mink og nýta. Hann er tekinn úr náttúrunni og settur í þessar aðstæður. Ég veit ekki hvort það eru aldir en þær eru ekki margar ef svo er. En hirðinginn aftur á móti er örugglega með meira en 2000 ára tímabil á bak við sig þar sem villtustu dýrin voru tekin frá og alltaf valið úr það sem handhægast var að hafa til meðferðar og meðhöndlunar. Þess vegna er alveg tómt mál að tala um það að íslenski hreindýrastofninn lúti þeim lögmálum í hátterni sem hreindýr lúta ef þau eru alvillt.
    Mér er ljóst að með því að skjóta á þessi dýr, eins og gert hefur verið, þá hefur skapast meiri styggð hjá þeim en væri ella. Og ég skil ekki að það sé meiri nauðsyn, hreint út sagt, að líta svo á að hreindýrin eigi að sleppa við þessar reglur sem hér er verið að setja upp heldur en íslenska stóðið þar sem það fær að vera í nægilega frjálsum haga. Um leið og við setjum girðingar, þá komum við í veg fyrir það að dýr geti leitað sér skjóls. Ég er þess vegna eindregið þeirrar skoðunar að það beri að taka hreindýrin inn í þetta frv. og vil biðja nefndina að kanna það alveg sérstaklega.
    Ég fullyrti ákveðna hluti gagnvart meðferðinni á hænsnunum og vil bæta því einu við að okkur hæstv. umhvrh. hefur að því leyti báðum orðið á í messunni að það er ekki okkar verk að dæma eftir þessum lögum þegar þar að kemur, það gera aðrir. Við eigum að setja lögin. Og það er nú svo að texti laga er það sem gildir þegar upp er staðið, það er texti laganna, ekki heimildir til reglugerðar sem aldrei verða nema innan þess ramma sem lögin setja. Og hér stendur í 3. gr. óumdeilanlega, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eigendum eða umráðamönnum dýra ber að sjá þeim fyrir fullnægjandi vistarverum, nægilegu fóðri, vatni og umhirðu.``
    Ég tel að vistarvera geti ekki verið fullnægjandi ef dýrin halda ekki eðlilegu jafnvægi, hvort sem við köllum það andlegu jafnvægi eða eðlilegri skynsemi, því það er vitað að hænsni sem eru geymd í búrum og er sleppt, ná ekki að hegða sér eðlilega eftir fyrri meðferð.
    Ég ætla ekki að þreyta þingið með langri ræðu um þessi mál. Ég tel þetta gott mál, ég hef áður sagt það. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég gat um varðandi stóð, að í sumum tilfellum leysi landið það vandamál betur en gert væri með venjulegu skýli sem við settum upp. En þar sem sléttlendi er, þar verður að setja upp skýli. Það tel ég að sé rétt. Ég hef komið t.d. í Hindisvík, svo að ég nefni dæmi, og horft á það landslag sem þar er, sem er lygilega góð vörn fyrir norðanveðrum, svo ekki sé meira sagt. Varnarveggurinn sem er þar er hærri en svo að hann verði byggður á sama hátt af mönnum.
    En megintilgangur þessara laga er sá að tryggja dýrum betri meðferð. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykn. að það er óviðunandi ástand í þessum efnum og eitt af því sem hefur verið leikið er að flytja dýr á milli lögsagnarumdæma til þess að komast undan því að þurfa að lúta eðlilegum reglum. Og það er mjög til bóta að það er tekið á því alveg sérstaklega í þessu frv.